Stjarnan tilkynnti nú fyrir stundu að liðið hefði samið við Júlíus Orra Ágústsson um að leika með liðinu á komandi leiktíð. Júlíus sem er uppalinn hjá Þór Ak, hefur leikið með Caldwell háskólanum í Bandaríkjunum síðasta árið. Hann hefur nú ákveðið að snúa aftur heim og leika með Stjörnunni á komandi leiktíð.
Á sama tíma framlengdu tveir öflugir leikmenn við liðið, þeir Tómas Þórður Hilmarsson og Gunnar Ólafsson en sá síðarnefndi var þrálátlega orðaður við lið KR í sumar en hefur nú bundið enda á þann orðróm.
Tilkynningu Stjörnunnar má finna hér að neðan:
Júlíus Orri Ágústsson hefur samið til tveggja ára við Stjörnuna. Júlíus er 21 árs bakvörður, uppalinn hjá Þór Akureyri og varð fyrirliði liðsins aðeins 19 ára gamall og þykir með efnilegri leikmönnum landsins. Þrátt fyrir ungan aldur á Júlíus að baki 52 leiki með Þór í efstu deild auk þess að hafa spilað með Caldwell háskólanum í New Jersey á síðasta tímabili. Það er mikið gleðiefni að fá Júlíus í hópinn og bjóðum við hann velkominn í Stjörnufjölskylduna.Gunnar Ólafsson framlengdi samning sinn við Stjörnuna einnig til tveggja ára. Gunnar sem er nýorðinn 29 ára, uppalinn Fjölnismaður, kom til liðsins um áramótin 2019-2020 og hefur leikið 64 deildarleiki með félaginu og tvívegis orðið bikarmeistari.Síðan skrifaði Tómas Þórður Hilmarsson einnig undir nýjan tveggja ára samning við félagið. Tómas sem er 27 ára spilaði sinn fyrsta leik með mfl Stjörnunnar 2011 og hefur leikið 266 deildarleiki með félaginu og fimm sinnum hampað bikarmeistaratitli.Allir þessir leikmenn voru valdir í æfingahóp A landsliðsins á dögunum. Meistaraflokkshópurinn er nú farinn að taka á sig góða mynd og leikmenn þegar farnir að undirbúa sig undir átök vetrarins undir leiðsögn Ragnars styrktarþjálfara.