Jón Ólafur Jónsson framlengdi í dag samningi sínum við Snæfell um eitt ár og mætir því galvaskur til leiks með Hólmurum í Domino´s deildinni á næstu leiktíð. Það þarf ekkert að fjölyrða um hve stór þáttur í leik Snæfells Jón er en hann var á lokahófi KKÍ valinn í úrvalslið Domino´s deildanna. Karfan.is ræddi við Jón áðan sem kvaðst nokkuð spenntur fyrir framhaldinu í Stykkishólmi.
„Ég fékk áhuga frá nokkrum liðum en ákvað að taka næsta ár með Snæfell. Ég er nokkuð spenntur enda vorum við að endurheimta Kristján Pétur úr KFÍ, þetta er náfrændi minn, góður drengur og góður leikmaður,“ sagði Jón en um aðrar viðbætur vildi hann sem minnst segja.
„Við verðum bara að bíða og sjá hvort það verði ekki einhverjar viðbætur. Það er svo kannski of snemmt að segja hvað verður með erlendan leikmann en mér þykir það líklegt að það verði bandarískur leikstjórnandi en það verður bara að koma í ljós,“ sagði Jón en hann og félagar í Snæfell fengu frekar snubbóttan endi á leiktíðinni þar sem leikstjórnandi þeirra Jay Threatt meiddist.
„Þessi úrslitakeppni var bara svona, Craion, Threatt og Frye meiddust allir, menn með stór hlutverk í sínum liðum og þetta hefur sín áhrif, jafnvel enn meira á næstu leiktíð,“ sagði Jón en þá verður 4+1 reglan við lýði eins og samþykkt var á síðasta körfuknattleiksþingi KKÍ.
Næst á dagskrá hjá Jóni eru Smáþjóðaleikarnir og heldur íslenski hópurinn út á sunnudag, þar verður íslenska bakvarðasveitin ógurlega samankomin eins og Jón komst að orði en hann mun vísast þurfa að heimsækja teiginn í Lúxemborg ásamt þeim Finni Atla og Ragnari Nathanaelssyni, gott ef Axel Kárason kíkir ekki þangað líka.
Mynd/ Snæfell.is – Jón Ólafur og Gunnar Svanlaugsson ganga frá málum.