Grindvíkingar hafa ráðið nýjan þjálfara á kvennalið félagsins en það er Keflvíkingurinn Jón Halldór Eðvaldsson sem stýra mun Grindavíkurkonum næstu tvö árin.
Guðmundur Bragason ákvað að vera ekki áfram með Grindavíkurkonur og tilkynnti það nýlega á lokahófi þeirra Grindvíkinga. Jón Halldór tekur því við af Guðmundi og Crystal Smith sem stýrðu liðinu á síðustu leiktíð.
Grindvíkingar komust ekki í úrslitakeppni Domino´s deildar kvenna þetta tímabilið, höfnuðu í 6. sæti með 9 sigra og 19 tapleiki.
Þess má einnig geta að nú eru það tveir gamlir skólafélagar úr Keflavíkinni sem stjórna báðum meistaraflokkum Grindavíkur. En þeir Jón Halldór og Sverrir Þór eru jafn gamlir og ólust saman upp í gegnum yngriflokka í Keflavík, bæði í körfuboltanum og svo fótboltanum.
Mynd/ umfg.is – Jón Halldór mættur til Grindavíkur.