Aðalfundur Körfuknattleiksdómarafélags Íslands var haldinn þann 6. júní s.l. Jón Guðmundsson, formaður KKDÍ, gekk úr stjórn en þeir Eggert Þór Aðalsteinsson og Guðmundur Ragnar Björnsson voru endurkjörnir til eins árs. Jón Bender var kjörinn nýr í stjórn félagsins til næstu tveggja ára og tekur við formennsku af nafna sínum. Eggert verður áfram gjaldkeri félagsins og Guðmundur ritari. Aðalsteinn Hrafnkelsson og Steinar Orri Sigurðsson tóku sæti í varastjórn KKDÍ. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KKDÍ.
Eitt af helstu verkefnum fráfarandi stjórnar var endurnýjun á samningum við alla samstarfsaðila til tveggja keppnistímabila. Helstu samstarfsaðilar KKDÍ eru BYKO, Iceland Express og Lengjan sem hafa reynst dómurum dyggir bakhjarlar á undanförnum árum.
Eitt af stærstu málum KKDÍ um þessar mundir eru viðræður um nýjan kjarasamning við KKÍ og félögin fyrir hönd dómara en samningar urðu lausir eftir síðasta keppnistímabil.