spot_img
HomeFréttirJón Axel: Er bara að reyna að sýna fólki hvað ég get

Jón Axel: Er bara að reyna að sýna fólki hvað ég get

 

Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson kláraði sitt annað tímabil í vetur hjá Davidson háskólanum í Bandaríkjunum. Mætti segja að Jón hafi bætt sig á öllum sviðum tölfræðinnar miðað við fyrsta árið. Þar sem hann skoraði 13 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar að meðaltali í leik. Þá var hann með yfir 40% nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna, en hann tók að meðaltali um 5 slík skot í leik.

 

Fór hann með Davidson alla leið í fyrstu umferð NCAA mótsins, þar sem að liðið laut í lægra haldi gegn Kentucky Wildcats eftir hetjulega baráttu þar sem að Jón setti meðal annars eina sex þrista.

 

Bróðir Jóns, Ingvi, mun leika í sömu deild og hann á næsta tímabili með liði St. Louis University. Því er það gefið að þeir bræður munu mætast á vellinum, en báðir spiluðu þeir með liði Grindavíkur áður en þeir fóru út.

 

Karfan spjallaði við Jón á dögunum og spurði hann út í tímabilið, leikinn gegn Kentucky og framhaldið.

 

 

 

Öðru tímabili þínu í háskólaboltanum bandaríska nú lokið.

Að hvaða leyti var það frábrugðið fyrsta árinu?

 

Var bara miklu betri heildar stemning í liðinu, allir voru á sömu línu. Við vissum allir að við ættum mikinn sjéns á að komast í March Madness, en vorum ekki að spila alveg eins og við vildum. Þá lögðu menn bara ennþá harðar að sér, við ákváðum bara að fara spila með meiri gleði og þá fórum við að vinna fleiri leiki, út frá því kom sjálfstraust.

 

Ef lið er með sjálfstraust og gleði innanborðs þá er mjög erfitt að stoppa það myndi ég segja. Á síðasta tímabili þá voru allir bara svona meira að bíða eftir að tímabilið væri búið og það var engin hamingja og gleði í liðinu. Bara öðruvísi leiðtogar sem settu ákveðinn “standard” í liðinu, þú ferð eins langt og leiðtoginn dregur ykkur.

 

 

 

Hvernig finnst þér hlutverk þitt í liðinu vera að þróast?

 

Ég held ég gæti ekki beðið um nokkuð betra en hvernig ég hef það hér. Kom inn á fyrsta ári og Bob gaf mér strax traust til að byrja alla leiki á fyrsta ári og hélt áfram núna á öðru tímabilinu. Með hlutverk sem vex bara, núna er maður meira með boltann og fær að stjórna sókninni eins og maður vill. Það þýðir samt lítið ef ég held ekki áfram að bæta mig og vinna í mínum leik, það er margt sem ég þarf að vinna í og halda traustinu sem þeir hafa.

 

 

 

Þið farið alla leið í NCAA mótið.

Hvernig var að fá að upplifa það?

 

Það er bara draumur að verða að veruleika. Þetta er eitthvað sem mig hefur langað að spila í síðan ég var lítill strákur að horfa á þetta upp í sófa með Pabba. Við höfum alltaf beðið spenntir eftir því að Mars mánuður komi á hverju ári til að kveikja á boltanum. Þegar maður ákvað að fara í skóla svo í USA, þá fórum við að fíflast með það að þarna væri ég að fara spila á móti einhverjum fljótlega.

 

Ekki bjóst ég að það yrði að veruleika svona fljótt en þetta er magnaðasta upplifun sem ég hef tekið þátt í. Það er allt svo fáranlega fagmannlegt í kringum þetta, þú færð svo mikið að dóti sem þú vissir ekki einu sinni að væri að bíða þín. Við erum að tala um að næstum því öll Ameríka fylgist með þessu og svo ekki gleyma öllu fólkinu úti heimi.

 

 

Leikur ykkar þar gegn stórliði Kentucky.

Hvernig var að fá að máta sig gegn verðandi NBA leikmönnum?

 

Það var alveg geggjað. Margir strákar í liðinu höfðu spilað AAU bolta á móti einhverjum og svona þannig auðvitað er þetta ekkert eitthvað klikkað fyrir þá að spila á móti þessum gaurum. Þeir þekkjast mest megnis allir ef þeir eru góðir körfuboltamenn. Fyrir einhvern gutta sem kom frá Íslandi og hefur horft á Kentucky dominate-a alltaf í March Madness var það var dálítið skrýtið að fara keppa á móti þeim.

 

Það tók smá tími að taka þetta allt inn. Þegar fyrri hálfleikur var búinn, þá hendum við okkur inn í klefa og tölum saman. Einn fyrirliðinn, Rusty, labbar til mín frá hinum endanum á búningsherberginu og byrjar að hlæja. Ég hundfúll yfir því að vera að klikka úr galopnum skotum var ekkert mikið sáttur með það. Þá segir hann "Jón það er einn hálfleikur búinn, hvernig nennirðu að velta þér upp úr þessu. Við þörfnumst þín ef við ætlum að sigra Kentucky, rífðu þetta upp og þú munt eiga klikkaðan seinni hálfleik.”

 

Svo fór fyrsta skotið ofan í og maður fékk gæsahúð, svo sá ég næsta fara ofan í. Þá hugsaði ég bara, svona ætlum við að hafa þetta og reyndi bara allt sem ég gat til að vinna leikinn. Svo þegar leikurinn kláraðist þá trúði maður því eiginlega ekki, manni fannst eins og það væri meira eftir á klukkunni.

 

Ég held ef við hefðum sett 1-2 skot á rétta tíma þá hefðu þeir choke-að og við stolið leiknum. Það er þess vegna sem þjálfarinn okkar repeat-ar á hverjum degi “Hey guys, fight for every possession. You never know what possession will lose you the game.”

 

 

 

Hvert sérðu þetta lið fara á næsta tímabili?

Hver eru markmiðin?

 

Ég sé þetta lið bara, “sky is the limit”. Kellan er náttúrulega bara ótrulegur skorari og það er enginn sem getur stoppað hann. Við erum með Kishawn sem getur tekið yfir leiki, þó hann hafi ekki sýnt það ennþá kannski. Þá hefur hann sannað það margoft fyrir okkur að hann hefur hæfileikana í það. Luke er að koma inn úr erfiðum meiðslum og er ein besta skytta sem ég hef spilað með. Svo er Carter búinn að improve-a svakalega og verður gaman að sjá hvað hann verður á næsta ári fyrir okkur. Svo eigum við að vera að fá mjög góða leikmenn inn, þannig það verður mjög áhugavert að sjá hvert við förum.

 

 

Hver eru þín persónulegu markmið sem leikmaður fyrir næsta tímabil?

 

Bara að halda áfram að bæta minn leik og vera besti leiðtoginn sem ég get orðið í þessum hóp til þess að taka þetta lið eins langt og við getum. Þetta snýst allt bara um að setja nöfn þín í réttu varirnar og ég held ef ég vinn í mínum leik áfram þá mun kall koma sem hefur alltaf verið draumur minn. Þannig það er bara að reyna að sýna fólki hvað ég get og bæta mig með hverjum leik og sjá hvert það tekur mig.

 

 

Nú er bróðir þinn að fara að spila í sömu deild og þú, þig hlakkar væntanlega til að fá hann út og fá að kljást við hann á vellinum?

Hvernig er þetta lið sem hann er að fara í?

 

Það verður bara helvíti gaman og ég get ekki beðið eftir þeim leik. Það verður samt helvíti skrýtið að vera að keppa á móti honum, við höfum gengið í gegnum súrt og sætt saman upp yngri flokkana. Við höfum spilað körfubolta saman síðan hann byrjaði í körfu 4 eða 5 ára, þannig þú getur rétt ímyndað þér hvernig það verður að vera í sitthvorum búningnum inn á vellinum.

 

Þetta verður öðruvísi. Ég er viss um að foreldrar okkar viti líka að þau hafa verið Davidson aðdáendur í nokkur ár núna og þau ætla ekkert að fara setja Saint Louis jafn hátt og Davidson á fyrst ári. Þannig það verður gott að sjá þau í Davidson treyjum í stúkunni. Nei ég segi svona, þau þurfa að fá sér einhverja treyju sem verður svona 50/50 treyja með Davidson og Saint Louis.

 

Þessi skóli sem hann er að fara í er spáð efsta sætinu í okkar deild af fjölmiðlum. Þannig þeir eru helvíti góðir og eru að koma til baka eftir að hafa þurft að breyta prógramminu. Þeir unnu allt hérna fyrir svona 5-6 árum, svo dó þjálfarinn þeirra og allt breyttist og nú eru þeir að byggja upp og verða komnir á sama level og þeir voru. Ég held þetta sé fullkominn skóli fyrir hann, eru smá villtir og þurfa góða þriggja stiga skyttu eins og hann, sem getur sett niður villt skot og hitnað fljótt.

 

 

 

Nú ert þú duglegur að tjá þig um heimalið þitt í Grindavík, sem áttu lakara tímabil nú en í fyrra.

Hvað þurfa þeir að gera til þess að fara aftur í úrslitin?

 

Já, með Grindavík. Ég veit ekki, við erum alltaf að reyna hugsa eitthvað stærra og stærra. Ef þú lítur á KR í vetur bara með sama kjarna og í fyrra. Titill og annar titill í ár, ég skil ekki hugmyndina á bakvið það að taka ekki Lewis Clinch Jr. bara aftur og fá Sigga inn og fá svo Jóhann Árna aftur. Þar ertu að bæta við 2 gæða leikmönnum inn í hópinn sem var runner-up árið áður ég held með Lewis Clinch Jr. við hefðum verið meistarar.

 

Ég er maður þríhyrnings sóknarinnar, ekki hafa mig rangt hérna. Ég vann titill í yngri flokk spilandi þríhyrninginn og fýlaði það í botn. Fýlaði það í botn þegar Helgi Jónas var hér. Í fyrra breytum við aðeins til og förum úr þríhyrningnum og spilum bara körfubolta. Núna förum við aftur í þríhyrning og þú sérð hvað gerist. Annað gott dæmi er að fara í þríhyrning með New York Knicks og Melo, það er galið. Þú býrð til sóknina þína frá leikmönnunum þínum og með hópinn sem við vorum með í fyrra og þegar ég var þar. Þríhyrningurinn var ekki málið og verður ekki málið á næsta ári finnst mér allavega. Ekki nema við fáum einhverja þannig gæja.

 

Ég held með framhaldið þá þurfum við að láta þessa titlafíkn róa sig smá niður, taka 1-2 tímabil og byggja upp á ungum leikmönnum og sjá hverju þeir skila.  96’ árgangurinn á marga titla að baki frá drengja og unglingaflokki og ekki einn maður annar en Ingvi sem fær almennilegar mínútur. Hinrik og Breki fá varla mínútur þarna. 97’ árgangurinn var óstöðvandi og enginn að fá almennilegar mínútur þar annar en Ingvi, auðvitað Hilmir að glíma við meiðsli og mun koma sterkur inn einhvern tímann. Þannig á næsta ári vill ég sjá Hinrik, Breka og Nökkva Má fá sjéns og leyfa þeim að sýna hvað þeir geta. Henda þeim í djúpu laugina, þeir eru syndir. Þeir munu hafa það fínt þar með öllum hákörlunum. Svo vill ég fá Nökkva Harðar aftur heim og sjá hann fá sjéns.

 

Nökvi Harðar, Hinrik og Nökkvi Már hafa allir sýnt hvað þeir geta í fyrstu deildinni. Þeir fóru í lið þar sem þeir voru allir næstbestu leikmennirnir í sínu liði á eftir kananum í liðinu, nema Hinrik hann var besti leikmaðurinn í liðinu á undan kananum. Ég er sáttur að Grindavík haldi trausti sínu áfram á Jóhann Þór og ég vona svo innilega að hann muni setja traust sitt í ungu strákana og að stjórn Grindavíkur geri hið sama. Því ef ekki, þá þarf bara að gera eitthvað í því, þá er verið að eyðileggja leikmenn sem eru með gríðarlega hæfileika.

 

 

Fréttir
- Auglýsing -