spot_img
HomeFréttirJón Arnór: Eitthvað sem ég er að gera fyrir mig!

Jón Arnór: Eitthvað sem ég er að gera fyrir mig!

23:58
{mosimage}

 

(Jón Arnór Stefánsson) 

 

Sannkallaður hvalreki varð á íslenskar körfuknattleiksfjörur í dag þegar Jón Arnór Stefánsson gerði eins árs samning við KR. Jón segir umboðsmann sinn enn ekki vita af þessum málum og bjóst við að hann yrði mjög sjokkeraður við tíðindin. Jón Arnór lék eins og kunnugt er með Lottomatica Roma í ítölsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en segir að líkurnar hafi verið orðnar litlar á að hann færi aftur til liðsins. KR hafi því orðið fyrir valinu og nú er kominn tími á að líta í skruddurnar ásamt því að leika með KR.

 

Af hverju snérir þú aftur heim í raðir KR?

,,Þetta var bara of stór samningur til að hafna, peningalega séð,” sagði Jón Arnór kíminn þegar Bryndís Gunnlaugsdóttir ræddi við hann í dag. ,,Ég hafði eiginlega samband við KR af fyrra bragði eftir að hafa ákveðið að vera hér heima á Íslandi í vetur svo var bara gengið frá þessu máli,” sagði Jón.

 

Voru engin önnur lið inni í myndinni?

,,Ekki hér á Íslandi, ég hef spilað allt mitt líf fyrir KR og það er bara liðið mitt svo það kom ekkert annað til greina.”

 

Hvernig fóru málin gagnvart Roma? Þeir réðu Brandon Jennings til sín, setti það þig út í kuldann?

,,Nei, það var ekki hans tilkoma sem olli því að ég fór frá Roma, hann er leikstjórnandi og bara tittur,” sagði Jón léttur í bragði. ,,Það eru ennþá samningaviðræður í gangi og umboðsmaðurinn minn veit það ekki einu sinni að ég sé búinn að skrifa undir hérna. Ég ætlaði mér að geyma þennan blaðamannafund áður en ég myndi segja honum þetta en hann verður ábyggilega mjög sjokkeraður. Það var þó ekki búið að loka á neitt hjá Roma en líkurnar voru alls ekki góðar á því að fara þangað aftur,” sagði Jón og bætti við að engin klásúla væri í samningi sínum við KR að hann gæti farið aftur út á næstu leiktíð. ,,Það er ekkert svoleiðis nema KR selji mig eitthvert, ég klára veturinn með KR og fer í frumgreinadeild við Háskólann í Reykjavík til að undirbúa mig fyrir áframhaldandi háskólanám,” sagði Jón.

 

Nú er KR með magnað lið á pappírum. Gera stuðningsmenn KR ekki kröfu á alla titla í vetur?

,,Að sjálfsögðu, allir stuðningsmenn krefjast titla og vissulega er núna einhver pressa á okkur en það þarf að vera góður andi í liðinu og við þurfum að spila vel saman. Ég hef litlar áhyggjur af þessu því flestir í hópnum núna hafa spilað saman síðan við vorum guttar og ég er bara ótrúlega spenntur fyrir vetrinum.

 

Hvernig líst þér á íslensku deildina núna?

,,Deildin er alltaf að styrkjast og körfuboltinn verður alltaf vinsælli og það var t.d. rosalega gaman að sjá þegar KR tók titilinn í Vesturbænum og sjá stemmninguna í kringum það. Vonandi að tilkoma okkar Kobba blási enn meiri stemmningu inn í körfuna og auki enn frekar stemmninguna í Vesturbænum,” sagði Jón.

 

Hver er þá staðan hjá þér núna varðandi atvinnumennsku erlendis?

,,Þetta er millilending og eitthvað sem ég er að gera fyrir mig. Ég er hræddur um að ef ég hefði ekki tekið þetta núna hefði ferillinn minn ekki endst mikið til viðbótar. Kannski að þetta ár gefi manni aukinn kraft til að stefna út að nýju,” sagði Jón.

 

Bryndís Gunnlaugsdóttir

Mynd: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -