spot_img
HomeFréttirJón Arnar: Ánægður með mína menn

Jón Arnar: Ánægður með mína menn

22:02

{mosimage}

Þjálfari ÍR, Jón Arnar Ingvarsson, var sáttur við baráttu sinna manna í kvöld en ÍR mátti þola 71-85 ósigur gegn Grindavík og því eru ÍR úr leik í úrslitakeppni Iceland Express deildar karla þetta árið.

,,Ég var ánægður með að mínir menn gáfu allt í þetta verkefni. Þannig hefur þetta reyndar verið í allan vetur, við höfum þurft að þjappa okkur vel saman og treysta á okkur sjálfa. Mótbyrinn hefur í rauninni bara kennt okkur að standa saman. Það hefur ekki verið í boði nein utanaðkomandi aðstoð þannig að ég var bara rosalega ánægður með mína menn,“ sagði Jón sem var einnig himinlifandi með stuðninginn í ÍR stúkunni en þar sungu Breiðhyltingar og trölluðu allan leikinn og gáfu sínum mönnum dynjandi lófatak við lokaflautu leiksins.

,,Við eigum frábæra stuðningsmenn og meiriháttar að fá svona stuðning,“ sagði Jón og sagði að fyrir vikið væri mikill karakter í ÍR-liðinu. ,,Þegar Ómar var rekinn útaf þá héldu menn bara áfram að berjast og djöflast og þrátt fyrir mótbyr í dómgæslunni fengum við líka meðbyr þar svo hlutirnir fóru að detta fyrir okkur og það hjálpaði líka,“ sagði Jón en frammistaða ÍR í kvöld var aðdáunarverð eftir að Ómar Sævarsson miðherji liðsins var sendur í sturtu með tvær tæknivillur á bakinu.

Aðspurður um framtíðina svaraði Jón:
,,Það er ekki ákveðið, það hefur ekki verið tekin ákvörðun um neitt en ég hef áhuga á því að þjálfa eitthvað áfram en við þurfum að skoða bara stöðuna og sjá hvernig hlutirnir verða hér,“ sagði Jón sem er kominn með nokkuð reynslumikinn hóp en viðurkenndi að í deild þar sem erlendir leikmenn skipta sköpum sé róðurinn þungur.

,,Þegar deildin byggist á þessum útlendingafaktor þá eru hlutirnir brattari fyrir okkur svo ég er stoltur af öllu því sem mínir leikmenn hafa mætt og þeir hafa náð sér í dýrmætt veganesti í vetur,“ sagði Jón sem hefði viljað stela einum sigri.

,,Það eru klárlega vonbrigði að hafa ekki stolið sigri gegn Grindavík því það höfum við gert síðustu ár og slóum t.d. KR út í fyrra og ýttum vel við Keflavík og við ætluðum að sjálfsögðu að gera það sama núna. Við vorum bara með of þunnan hóp og því var Grindavík einfaldlega of stór biti fyrir okkur að þessu sinni,“ sagði Jón Arnar Ingvarsson þjálfari ÍR.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -