11:19
{mosimage}
(Jóhannes Árnason)
,,Þetta er svona eins og ástarfundir, fólk finnur alltaf leiðir til að hittast,“ sagði Jóhannes Árnason þjálfari KR í samtali við Karfan.is en í kvöld hefst enn ein rimman millum stórveldanna KR og Keflavíkur þegar liðin mætast í sínum fyrsta undanúrslitaleik í Iceland Express deild kvenna. Leikurinn hefst kl. 19:15 í Toyotahöllinni í Keflavík.
,,Mig var farið að gruna þetta um jólin að við myndum mæta Keflavík og þetta verður einhvern veginn alltaf þannig. Ég held bara að mínir leikmenn séu bæði sáttir og spenntir fyrir því að mæta Keflavík,“ sagði Jóhannes en KR konur eru nýkomnar upp úr erfiðri rimmu gegn Grindavík en sú glíma fór í oddaleik. Er enn nóg á taknum hjá KR eftir Grindavíkurglímuna?
,,Þetta er góð spurning en við byrjuðum að æfa í júlí og þar lögðum við grunninn okkar að keppnistímabilinu og sem betur fer höfum við hingað til sloppið við stórvægileg meiðsli. Á þessum tímapunkti á tímabilinu held ég að sama hvort við hefðum átt þessa rimmu við Grindavík eða ekki að þá eru margir komnir í smá meiðsli sem er að angra þá. Þetta kemur niður á sama stað, þegar þú ert kominn í búning og inn á völlinn þá ertu annað hvort tilbúinn eða ekki,“ sagði Jóhannes en hvernig líst honum á Keflavíkurliðið eftir að TaKesha Watson kom til liðs við Íslandsmeistarana? Þarf hann að taka fram glósurnar frá úrslitaeinvíginu í fyrra?
,,Ég veit ekki hvort ég eigi nokkuð að vera að því, við töpuðum öllum leikjunum gegn þeim í úrslitunum,“ sagði Jóhannes léttur á brún. ,,Þetta er bara skemmtilegt verkefni að fá að hugsa um þetta og ég veit að Pálína (Gunnlaugsdóttir) er örugglega orðin þreytt á því eftir tímabilið að hafa stífa vörn á sér og örugglega fegin að nú losni aðeins um hana. Sóknarleikur Keflavíkur í heild sinni á ekkert eftir að breytast því það verður örugglega spilaður sami Keflavíkurboltinn og við eigum okkar svar við honum. Við munum koma til með að vera tilbúnar í þessa leiki, það breytir engu máli hver verður inn á því það verður að taka á TaKeshu Watson eins og öllum öðrum og spila góða vörn,“ sagði Jóhannes ákveðinn.
Mynd: [email protected]