spot_img
HomeFréttirJóhann Árni: Eðaldrengir og nægur spilatími

Jóhann Árni: Eðaldrengir og nægur spilatími

07:00
{mosimage}

(Jóhann í leik með Proveo Merlins)

Þýska Pro B deildin hefst næsta föstudag og þar verður Njarðvíkingurinn Jóhann Árni Ólafsson í eldlínunni með liði sínu Proveo Merlins. Bikarkeppnin er þegar hafin þar sem Merlins kepptu síðasta fimmtudag og komust áfram og nú hefur tímabilið sig til flugs og segir Jóhann í samtali við Karfan.is að miklar annir séu framundan.

,,Það er allt brjálað næstu dag, leikur á föstudag og sunnudag í deildinni, á miðvikudag spilum við svo í bikarnum og aftur á laugardag í deild,” sagði Jóhann en hann tjáði Karfan.is að hægt væri að fylgjast með leikjum liðsins í beinum netúsendingum á heimasíðu Proveo Merlins, http://www.proveo-merlins.de/qf_index.php

Nú er deildin að fara að skríða af stað, hvernig hefur þér gengið að komast inn í hópinn hjá Proveo Merlins?
,,Alveg frábærlega, það er mikið um eðaldrengi hérna og nægur spilatími þannig að ég hef ekki yfir neinu að kvarta. Ég var svolítið hræddur enda Þjóðverjar ekki með stimpil á sér fyrir að vera skemmtilegir en strákarnir í liðinu hérna eru greinilega ekki þessir týpísku Þjóðverjar.”

Hvernig gengi hefur Proveo Merlins verið spáð þetta tímabilið?

,,Liðið hafnaði í fimmta sæti í fyrra og misstu svolítið flugið í enda tímabilsins þannig að markmiðið era ð fara upp um deild og okkur er spáð í top fimm. Liðið er mikið breitt frá því í fyrra og því erfitt fyrir folk að spá fyrir um gengið en markmiðið okkar er að fara upp í Pro A deildina.”

Hvernig bolta hafið þið verið að leggja upp með?
,,Það var lagt upp með að spila mjög hraðan bolta en það hefur ekki tekist hingað til þar sem aðalleikstjórnandinn okkar meiddist strax í fyrsta leik og er búinn að vera frá síðan þá. Vonandi að okkur takist að spila það sem lagt var upp með tímanum. Aðalskorarinn okkar er Bandaríkjamaður og það er leitað mikið til hans.”

Þið mætið Franken Hexer í fyrsta leik á föstudag, þekkið þið eitthvað til liðsins?
,,Já, þetta er hálfgerður nágrannaslagur en þetta lið er frá Nurnberg sem er hérna tæpan klukkutíma frá okkur. Þjálfarinn sagði okkur að þeir væru með mjög ungt og ferskt lið þetta árið, meira veit ég ekki nema að þetta er lið sem er búið að flakka svolítið um deildir undanfarið.”

Vertíðin er því að hefjast í Þýskalandi rétt eins og hér heima og víðast hvar annars staðar í körfunni en það verður fróðlegt að sjá hvernig Jóhanni mun ríða af á sínu fyrsta ári í atvinnumennsku.

[email protected]
Mynd: http://www.proveo-merlins.de/qf_index.php

Fréttir
- Auglýsing -