Þór í Þorlákshöfn og Jesse Pellot-Rosa hafa komist að samkomulagi þess efnis að Pellot-Rosa muni leika með Þórsurum í Dominos deild karla á komandi vetri.
Pellot-Rosa er fæddur 1984 og hefur verið atvinnumaður í 10 ár. Hann er 193 cm fjölhæfur bakvörður sem getur einnig leyst stöðu framherja.
Pellot-Rosa útskrifaðist úr VCU háskólanum árið 2007. Hann kom til liðs við Keflavík haustið 2008 sem var hans fyrsta starf í Evrópu, en var í hópi fjölmargra erlendra leikmanna sem héldu heim á leið vegna fjármálakreppunnar þá um haustið. Hann lék þann vetur með SISU í Danmörku en kom svo til liðs við Keflavík aftur í úrslitakeppninni hvar þeir léku gegn Njarðvík og KR. Pellot-Rosa var með 34,8 stig, 9,6 fráköst, 4,2 stoðsendingar og 2,2 stolna bolta á leik í þeim fimm leikjum er hann lék með Keflavík og frægasti leikurinn er þríframlengdur leikur gegn KR í DHL höllinni í þriðja leik liðanna í undanúrslitaseríunni. Pellot-Rosa hefur einnig komið við í efstu deild í Ísrael, efstu deild í Argentínu og Mexíkó svo eitthvað sé nefnt.
Það er fagnaðarefni fyrir ungt Þórslið að fá þennan reynslumikla leikmann til liðs við félagið en von er á kappanum í september, strax eftir Eurobasket í Helsinki.
Sjá einnig á facebook síðu Þórs