18:40
Allen Iverson , stórstjarna Denver Nuggets, er á leiðinni til Detroit Pistons í skiptum fyrir Chauncey Billups og Antonio McDyess. Þetta kemur fram á vef Yahoo! Sports í dag.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um feril Iverson sem er einn besti bakvörður í sögu NBA-deildarinnar en hefur löngum þótt erfiður við að eiga í persónulegum samkiptum. Það hefur þó ekki verið stórt vandamál síðan hann kom til Denver fyrir tveimur árum.
Billups var valinn besti leikmaður NBA-úrslitanna árið 2004 þegar hann leiddi Pistons til meistaratignarinnar, en áður en hann fór til Detroit hafði hann farið víða, m.a. staldraði hann við í heimabæ sínum Denver á árunum 1998-2000.
Með brotthvarfi Iversons missir George Karl, þjálfari Denver annan hlutann úr skæðasta sókjnarpari deildarinnar í áraraðir þar sem Iverson og Carmelo Anthony skoruðu 52 stig samtals. Karl er að endurbyggja liðið eftir að hann missti Marcus Camby í sumar og þurfti að styrkja vörnina. Billups og McDyess eru báðir góðir varnarmenn og Billups að auki svellkaldur undir pressu.
Pistons fær hins vegar í sinn hlut risavaxinn samning Iversons sem rennur út í sumar og verða því í góðri stöðu á leikmannamarkaðnum. Billups var hins vegar með þrjú ár eftir af sínum samningi og möguleika á því fjórða.
Detroit hefur verið með sterkustu liðum deildarinnar síðustu fimm árin en nú hafa þeir verið slegnir út í úrslitum Austurdeildarinnar þannig að Joe Dumars og félagar hafa séð sér leik á borði með að hrista upp í hlutunum eftir vonbrigðasumar þar sem lítið gekk á í leikmannamálum.
Dumars sagði einmitt fyrir sumarið að von væri á breytingum og enginn væri stikkfrí í þeim málum.
ÞJ