Skorarinn mikli Allen Iverson sem nýlega gekk í raðir Denver Nuggets í NBA deildinni, mætir í kvöld sínum gömlu félögum í Philadelphia 76ers. Þetta verður eini leikur Iverson gegn Philadelphia í ár þar sem liðin spiluðu fyrri leik sinn á tímabilinu í haust.
Philadelphia er sem fyrr í neðsta sæti deildarinnar, en Denver hefur gengið upp og ofan síðan nokkrir af leikmönnum liðsins voru settir í bann eftir slagsmálin í New York fyrir jól. Iverson skoraði að meðaltali 31,2 stig og gaf 7,3 stoðsendingar í leik fyrir Philadelphia í 15 leikjum fyrir Philadelphia í vetur, en hefur skorað 28,6 stig og gefið 8,8 stoðsendingar að meðaltali í 5 leikjum hjá Denver.
Leikur kvöldsins verður háður í Denver og því fær Iverson ekki tækifæri til að mæta til Philadelphia fyrr en á næstu leiktíð. Þeir Joe Smith og Andre Miller spila svo sinn fyrsta leik í Denver eftir að þeir gengu í raðir Philadelphia í skiptum fyrir Iverson. Svo er bara að bíða og sjá hvort Iverson verður í stuði gegn sínum gömlu félögum í nótt.