spot_img
HomeFréttirÍvar: Gríðarlega sterkur og erfiður riðill

Ívar: Gríðarlega sterkur og erfiður riðill

Ívar Ásgrímsson þjálfari A-landsliðs kvenna á blaðamannafundi

 

Hvernig líst þér á riðilinn?

Þetta er gríðarlega erfiður riðill. Við hækkuðum í styrkleikaflokki eftir síðustu undankeppni, spiluðum vel og tókum stóra sigra t.d. á móti Ungverjum þar sem við vorum að spila ábyggilega besta leik sem að íslenska landsliðið hefur spilað og stelpurnar voru stórkostlegar í þeim leik. Þann riðil náðum við líka að vinna Portúgal heima og við þurfum að byggja á því núna en ljóst er að riðilinn sem við erum í núna er gríðarlega sterkur. Við erum að byrja spila núna á móti Svarfellingum og svo Slóvökum úti og þetta eru bæði lið sem að voru í lokakeppninni í sumar. Svo er líka ljóst að öll þessi lið séu með Kana sem að spilar stór hlutverk hjá þeim og ég veit reyndar ekki hvort að þau komi með þá í þessa leik en við búumst alveg við því. Þetta eru engir smá Kanar, ég sá í 25 manna hópi Svartfellinga að þar væri WNBA leikmaður, en ég er ekki enn búinn að sjá 12 manna liðið þeirra, hún verður kannski ekki með, hver veit. Þannig að þetta er gríðarlega sterkt lið. Slóvakar enduðu í 6. sæti og Svartfellingar í því 16., svo við erum að keppa á móti stórum þjóðum og svo kemur Bosnía þar á eftir. Við vitum minna um þær en ég held þetta er gríðarlega sterkt lið líka. Þetta er gríðarlega sterkur og erfiður riðill.

Hvernig er hópurinn okkar að koma saman?

Hann er bara fínn, stelpurnar eru að koma í fínu formi eftir að hafa verið að spila í deildinni, við erum kominn inn með Hildi og Söndru að utan og þetta lítur bara vel út. Við erum með ungt lið og erum líka með reynslumeiri stelpur af því að Helena er kominn aftur inn og svo erum við líka með Sigrúnu Sjöfn sem er svona reynslumeiri og RM [Ragna Margrét]. Þetta er bara mjög jákvætt, það er góð blanda í hópnum og þetta lítur bara mjög vel út. Við verðum að halda áfram að spila góða vörn eins og við höfum verið að gera en auðvitað þurfum við að hitta betur en við höfum verið að gera. Sérstaklega núna í sumar í leikjum sem við vorum að spila þá hittum við ekki nógu vel en vörnin var yfirleitt fín, það vantaði bara aðeins upp á að hitta betur.

Er einhver breyting á leikskipulaginu ykkar?

Ekki varnarlega, við höldum áfram að spila okkar vörn sem við vorum að spila í síðustu undankeppni og hefur virkað mjög vel. Við erum að reyna láta leikmenn vera grimmari á boltamann og við erum búin að vera fara yfir visst á móti screen-um og hvernig við erum að spila og það tekur bara tíma. Við þurfum æfingaleiki og leiki til þess að þetta fari að þróast og að vera betra. Sóknarlega erum við aðeins að breyta hjá okkur, erum aðeins komin í meiri opnanir og erum að reyna að teygja meira á varnarleik andstæðinganna. Þær eru stórar þannig að við erum að reyna draga þær aðeins meira út og erum að reyna spila dálítið vítt og reyna fá meiri færslu í okkar sóknarleik.

Hver er helsti styrkleiki okkar?

Vörnin hefur verið okkar helsti styrkleiki og eins og ég segi, ef við hittum fyrir utan þá erum við með hörkulið. Við þurfum dálítið að treysta á að hitta og þá dugar ekki að vera með 25% þriggja stiga nýtingu, við verðum að fara yfir 33% til að eiga séns á móti þessum liðum.

 

Fréttir
- Auglýsing -