13:26
{mosimage}
(Ívar Ásgrímsson)
Haukakonur áttu ekki í teljandi vandræðum með bikarmeistara ÍS í leik um meistara meistaranna í Njarðvík í gær. Skemmst er frá því að segja að Haukar höfðu betur 70-48 og gera má ráð fyrir því að róðurinn verði erfiður í vetur hjá ÍS sem og öðrum Reykjavíkurliðum í kvennakörfunni.
„Við erum búnar að æfa saman í viku og höfum einu sinni náð 10 manns á æfingu. Hjá ÍS eru stelpur sem hafa lítinn tíma í þetta og eins og stendur er þetta bara spurning hvort við náum í lið í vetur,“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari ÍS, í samtali við Karfan.is. „Kvennakarfan í Reykjavík á undir högg að sækjar og horfurnar eru því miður ekki góðar,“ sagði Ívar.
Stúdínur hafa reynt að fá til sín leikmenn fyrir komandi tímabil en fæstir eru tilbúnir að leggja jafn mikla vinnu á sig og þarft til að vera með lið í fremstu röð. „ÍS hefur verið eitt besta liðið í Reykjavík í um 5 ár og það er vissulega vandamál að við skulum ekki vera með yngri flokka, þannig hefur það reyndar alltaf verið hjá ÍS. Því miður er lítið sem ekkert að koma frá öðrum félögum í Reykjavík,“ sagði Ívar sem vill meina að kvennakarfan í Reykjavík hangi á bláþræði.
„Það eru bara tvö kvennalið í unglingaflokki á landinu svo eitthvað þarf að gera. Nú þurfa allir að spýta í lófana og leggjast á eitt um að bæta stöðuna,“ sagði Ívar að lokum.
Ljóst er að Haukar, Keflavík og Grindavík tefla fram sterkustu kvennaliðunum í Iceland Express deildinni og það mun koma í hlut ÍS, Breiðabliks og Hamars/Selfoss um að berjast fyrir tilverurétti sínum í deildinni.