Úrslitin á Eurobasket 2017 halda áfram að koma verulega á óvart eftir leikdag fjögur. Ísrael sem hafði ekki unnið leik fyrir gærdaginn tók sig til og vann mjög sterkt lið Þýskalands.
Leikurinn var spennandi en Richard Howell fór fyrir sínum mönnum í Ísrael og endaði með 23 stig og 9 fráköst. Þjóðverjar leiddu nánast allan leikinn en frábær barátta Ísrael kom þeim aftur inní leikinn um miðjan fjórða leikhluta. Það var svo Mekel sem tryggði Ísrael sigur með víti á lokasekúndum leiksins.
Sigur Ísrael hleypir spennunni í B-riðli heldur betur upp en einungis einu stigi munar á liðinu í efsta sæti og því neðsta í riðlinum. Öll liðin hafa kroppað í sigur frá hvort öðru og því ómögulegt að sjá hvað gerist í síðustu tveimur umferðunum.
Helstu tilþrifin úr leiknum má finna hér að neðan.