Undir 16 ára lið Íslands sigraði Lúxemborg fyrr í dag, 73-66, á Evrópumótinu í Búlgaríu. Leikurinn var hluti af umspili liðsins á milli sæta 21-24 og með sigrinum er því ljóst að næst leikur liðið um sæti 21-22.
Einhver veikindi hafa verið að hrjá liðið í síðustu leikjum, en í dag virtust allir þeir sem höfðu verið veikir taka einhvern þátt. Hafsteinn Guðnason var þó ekki með, en hann fékk höfuðhögg í leik gegn Búlgaríu og því var ekki tekin nein áhætta með að senda hann inn í leikinn í dag.
Fyrri hálfleikur leiksins var í járnum. Eftir fyrsta leikhluta var Ísland tveimur stigum á undan, 18-16. Þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var munurinn sá sami, 38-36. Í byrjun seinni hálfleiksins náði íslenska liðið svo aðeins að slíta sig frá þeim. Staðan fyrir lokaleikhlutann var 57-50. Í honum voru þeir svo yfir allan tímann. Næst komst Lúxemborg þrem stigum frá þeim um miðbygg hlutans áður en að Ísland sleit sig aftur frá þeim. Að lokum sigraði Ísland með sjö stigum, 73-66.
Atkvæðamestur í liði Íslands var Hilmar Henningsson, en hann skoraði 15 stig, gaf 9 fráköst og stal 3 boltum í leiknum.
Næst leikur liðið á morgun gegn Austurríki í umspili um sæti 21-22.