Njarðvíkingar komu fram hefndum í Vodafonehöllinni í kvöld með 52-72 sigri á Val í Iceland Express deild kvenna. Ólöf Helga Pálsdóttir fór mikinn í Njarðvíkurliðinu með 18 stig, 16 fráköst og 7 stoðsendingar. Njarðvíkingar höfðu góð tök á leiknum þó mjótt væri oftast á munum en grænar sigldu fram úr á lokasprettinum og uppskáru mikilvægan, kanalausan, sigur. Á dögunum létu Njarðvíkingar bandaríska leikmanninn Shantrell Moss fara frá félaginu og um leið og síðustu sekúndurnar voru að renna sitt skeið í leiknum heyrðist Unndór Sigurðsson þjálfari Njarðvíkurkvenna messa hátt og skýrt yfir söfnuði sínum: ,,Íslenskt, já takk!“
,,Ég er búin að segja þetta síðan Moss fór að við ættum eftir að taka þennan leik,“ sagði Ólöf Helga Pálsdóttir leikmaður Njarðvíkur í samtali við Karfan.is eftir leik. ,,Við vorum bara að spila miklu betur saman í kvöld sem heild og þá áttum við líka harma að hefna gegn Val,“ sagði Ólöf en Njarðvík tapaði gegn Val fyrr í vetur eftir framlengdan spennuleik.
,,Ég var reyndar heima með ælupest þegar við töpuðum hér síðast en fylgdist samt vel með. Ég er því ekkert smá ánægð með þennan sigur og hvernig stelpurnar stigu allar upp í kvöld,“ sagði Ólöf og vonaðist til þess að Njarðvíkingar myndu verða kanalausir það sem eftir lifir tímabilsins.
,,Við getum pottþétt klárað kanalausar,“ sagði Ólöf en er þá raunhæft að stefna á úrslitakeppnina? ,,Við verðum bara að sjá til en ef við spilum eins og við gerðum í kvöld eigum við fulla möguleika á því en stjórnin og þjálfarinn taka þessar ákvarðanir,“ sagði Ólöf en mun þá ekki mikið mæða á henni í kanalausu Njarðvíkurliði. ,,Jú örugglega en ég hef litlar áhyggjur af því þegar maður á svona góða liðsfélaga,“ sagði Ólöf kát í bragði eftir Njarðvíkursigurinn.
Kuldalegt var um að litast í Vodafonehöllinni í upphafi leiks þar sem bæði lið áttu í stökustu vandræðum með að finna körfuna. Ína María Einarsdóttir átti lokaorðið í fyrsta leikhluta með þriggja stiga körfu fyrir Njarðvíkinga og stóðu leikar 10-13 en í öðrum leikhluta lifnaði aðeins yfir stigaskorinu þó vörnin hefði verið aðalsmerki fyrri hálfleiks.
Sigurlaug Guðmundsdóttir jók muninn í 10-18 með þrist fyrir Njarðvíkinga en skömmu síðar náði Dranadia Roc loks að koma sér á blað í liði Vals með þriggja stiga körfu. Roc gerði reyndar næstu fimm stig í röð í liði Vals og minnkaði muninn í 19-24. Auður Jónsdóttir kom svo með nokkrar fínar rispur í liði Njarðvíkur sem leiddi27-32 í hálfleik og Auður stigahæst í liði gestanna með 9 stig. Hjá Val var Dranadia Roc með 6 stig.
Sóknarleikur liðanna var áfram stirður í upphafi síðari hálfleiks en Njarðvíkingar voru að leika betri vörn. Dranadia Roc jafnaði metin í 32-32 af vítalínunni en Sigríður Viggósdóttir kom Val yfir skömmu síðar 34-32. Njarðvíkingar efldust við mótlætið og gátu loks skorað sína fyrstu körfu í þriðja leikhluta eftir sjö mínútna leik! Þar var Heiða Valdimarsdóttir að verki þar sem hún skoraði eftir sóknarfrákast og fékk villu að auki og setti niður vítið og breytti stöðunni í 34-35 Njarðvík í vil. Heiða átti síðar eftir að snögghitna á lokasprettinum og lauk hún leik með 17 stig.
Njarðvík leiddi 37-43 fyrir fjórða leikhluta en þegar í hann var komið varð fljótlega ljóst að gestirnir ætluðu sér ekki að glutra frá sér stigunum tveimur. Valskonur reyndu erfið skot og nýtingin eftir því á meðan Njarðvíkingar léku fína vörn og fóru sér ekki að neinu óðslega í sókninni.
Lokatölur urðu svo 52-72 Njarðvík í vil þar sem Valskonur hreinlega köstuðu inn handklæðinu en þessi leikur þeirra í kvöld var afar slakur á báðum endum vallarins á meðan Njarðvíkingar mættu einbeittir til leiks.
Dranadia Roc var stigahæst í liði Vals í kvöld með 19 stig og 8 fráköst en hún var samt ekki ógnandi og hafði ekki nægilega góð tök á Valssókninni. Sigríður Viggósdóttir átti fína spretti og barðist vel með 4 stig og 14 fráköst en sterkir leikmenn á borð við Þórunni Bjarnadóttur, Hrund Jóhannsdóttur og Birnu Eiríksdóttur voru ekki að sýna sitt rétta andlit og því fór sem fór.
Njarðvíkingar voru á hinn bóginn baráttuglaðir og léku ljómandi góða vörn. Ólöf Helga fór fyrir grænum með 18 stig, 16 fráköst og 7 stoðsendingar. Þess má geta að 14 af 18 stigum Ólafar komu af vítalínunni en hún sallaði niður 14 af 16 vítum sínum í leiknum. Heiða Valdimarsdóttir átti góðan lokasprett með 17 stig og 6 fráköst. Þá lék Auður Jónsdóttir mjög vel í fyrri hálfleik og Harpa Hallgrímsdóttir stóð fyrir sínu í teignum með 8 stig og 10 fráköst.
Dómarar leiksins: Eggert Þór Aðalsteinsson og Steinar Orri Sigurðsson: Dæmdu vel og fengu ekki mikla áskorun í kvöld.