Íslands- og bikarmeistarar Snæfells í körfuknattleik karla leita nú að erlendum leikmanni til þess að fylla skarð Hlyns Bæringssonar sem farinn er í atvinnumennsku til Svíþjóðar. Auk þess er ljóst að Ingvaldur Magni Hafsteinsson snýr ekki aftur í Hólminn, en hann sótti um vinnu hjá lögreglunni í Stykkishólmi en fékk ekki. Snæfell hefur orðið fyrir talsverðri blóðtöku því Sigurður Þorvaldsson og Martins Berkis munu ekki heldur leika áfram með liðinu. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
,,Við höfum reynt við þó nokkra Íslendinga sem því miður hafa ekki séð sér fært að koma í Hólminn. Eins og staðan er í dag er ég að leita að erlendum leikmanni,” sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gær.
Morgunblaðið/ www.mbl.is
Ljósmynd/ Jón Björn Ólafsson – Ingi Þór Steinþórsson segir íslenska leikmenn ekki áhugasama fyrir því að leika með Snæfell.