Sundsvall Dragons taka á móti Solna Vikings í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld en þar mætir Logi Gunnarsson með Solna á heimavöll Hlyns og Jakobs í Sundsvall. Bæði lið eru í 4.-6. sæti í deildinni um þessar mundir með 8 stig ásamt Helga Magnússyni og félögum í Uppsala Basket. Á toppnum trónir Södertalje Kings með 16 stig og hefur liðið aðeins tapað einum deildarleik til þessa.
Solna og Sundsvall mættust í Solnahallen þann 12. október síðastliðinn þar sem Solna vann á flautukörfu. Íslendingarnir létu vel að sér kveða í leiknum, Logi með 22 stig fyrir Solna og Hlynur einnig með 22 stig fyrir Sundsvall og Jakob Örn bætti við 17. Þá hefur Karfan.is heimildir fyrir því að Hlynur og Jakob hafi yfirgefið Solnahallen með smurt nesti heiman frá Loga þegar liðin mættust í október svo það er spurning hvort sá höfðingdómur verði endurtekinn í kvöld?
Þá leikur Helgi Magnússon á heimavelli með Uppsala Basket þegar 08 Stockholm HR kemur í heimsókn.
Ljósmynd/ Frá viðureign liðanna í Solnahallen í október