Haukar eru Íslandsmeistarar Bónus deildar kvenna, en í kvöld lögðu þær Njarðvík með minnsta mun mögulegum, 92-91, í framlengdum oddaleik í Ólafssal.
Fyrir leik
Eftir að Haukar höfðu unnið fyrstu tvo leiki einvígis liðanna hafði Njarðvík unnið síðustu tvo. Þó erfitt að segja að einvígið hafi snúist þar sem að lengst af hafa leikir liðanna verið hnífjafnir.
Óhætt að segja að sögulega hafi Njarðvík haft vinninginn í seríum liðanna fyrir leik kvöldsins, en báðir Íslandsmeistaratitlar félagsins höfðu unnist á heimavelli Hauka, sá fyrsti árið 2012 og síðan eftir oddaleik árið 2022.

Gangur leiks
Leikurinn er nokkuð jafn á upphafsmínútunum. Þó eins og heimakonur fái aðeins fleiri skot til að detta og ná þær að vera skrefinu á undan lengst af í fyrsta fjórðungnum. Undir lok hans er leikurinn þó hnífjafn, staðan 22-22 inn í annan fjórðunginn.
Í öðrum leikhlutanum eru Haukar með betri tök á leiknum en gestirnir. Ná góðum stoppum og byggja sér upp ágætis forystu á lokamínútum fyrri hálfleiksins. Munurinn 7 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 43-36.
Brittany Dinkins var stigahæst Njarðvíkur í fyrri hálfleiknum með 10 stig á meðan Sólrún Inga Gísladóttir var stigahæst fyrir Hauka, með 12 stig af bekknum.
Heimakonur halda forystu sinni vel inn í seinni hálfleikinn. Ná á löngum stundum að stoppa lið Njarðvíkur á varnarhelmingi vallarins og þá fær Þóra Kristín Jónsdóttir fyrirliði þeirra nokkur skot til að detta. Mest komast Haukar í 16 stiga forystu í þriðja leikhlutanum, en Njarðvík nær aðeins að laga það fyrir lok leikhlutans og munar aðeins 9 stigum á liðunum fyrir lokaleikhlutann, 63-54.
Njarðvík nær ágætis áhlaupi í fjórða leikhlutanum. Á lokamínútunni fer svo af stað ótrúleg atburðarrás þar sem Þóra Kristín kemur Haukum í 6 stiga forystu, 79-73. Á síðustu þrjátíu sekúndunum nær Njarðvík að jafna leikinn, fyrst með þrist frá Brittany Dinkins og svo öðrum þegar klukkan er að renna út frá Huldu Maríu Agnarsdóttur, 79-79. Leikurinn því framlengdur.
Njarðvík byrjar framlenginguna betur og er með forystuna þangað til tæpar tvær mínútur eru eftir. Þá setur Tinna Guðrún Alexandersdóttir þrist fyrir Hauka og kemur þeim yfir, 86-83. Krista Gló Magnúsdóttir svarar í sömu mynt fyrir Njarðvík, 86-86. Þristunum heldur áfram að rigna á lokamínútunni, þar sem Tinna Guðrún setur annan og Brittany svarar fyrir Njarðvík, 91-91. Bæði lið fara nokkuð illa að ráði sínu á lokasekúndunum, en að lokum vinna Haukar titilinn á víti frá Diamond Battles þegar 22 sekúndur eru eftir, 92-91. Njarðvík fær nokkur góð færi á að stela sigrinum á lokasekúndunum, en ótrúleg vörn Hauka heldur. Haukar Íslandsmeistarar 2025!

Kjarninn
Körfubolti er leikur áhlaupa og það mátti svo sannarlega sjá á leik kvöldsins. Litlu mátti þó muna í leiknum þar sem lengst af var munurinn í kringum fimm stigin. Njarðvík gerir ótrúlega vel að koma leiknum í framlengingu og voru nálægt því að sigla sigrinum heim í henni. Þar má hinsvegar segja að Haukavörnin hafi riðið baggamuninn. Hélt alltaf þegar það var nauðsynlegt fyrir hana að gera það.
Atkvæðamestar
Framlag Hauka í leik kvöldsins kom úr nokkrum áttum. Í fyrri hálfleik var það Sólrún Inga Gísladóttir sem var að setja þrista fyrir þær, en hún skilaði í heild 14 stigum fyrir liðið í kvöld. Þegar líða fór á leikinn var það svo Þóra Kristín Jónsdóttir, sem skilaði í heild 25 stigum, 6 fráköstum, 6 stoðsendingum, 4 stolnum boltum og Tinna Guðrún Alexandersdóttir, sem var með 12 stig og 8 fráköst sem drógu vagninn. Lore Devos átti einnig fínan leik með 10 stig, 11 fráköst og þá var Diamond Battles með 20 stig og 7 stoðsendingar.
Þóra Kristín var að leik loknum valin verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna, en hún var gjörsamlega frábær fyrir lið Íslandsmeistaranna í einvíginu á báðum endum vallarins.
Fyrir Njarðvík var Brittany Dinkins með 28 stig, 15 fráköst, 6 stoðsendingar, Emilie Hesseldal með 10 stig, 16 fráköst, 5 stoðsendingar og Paulina Hersler með 18 stig, 14 fráköst og 7 stoðsendingar. Krista Gló Magnúsdóttir átti einnig góðan leik með 15 stig og þá var Hulda María Agnarsdóttir með 9 stig og 7 fráköst.
Myndasafn (Gunnar Jónatansson)
Viðtöl væntanleg