spot_img
HomeFréttirÍsland stóð í feikisterku liði Serba - 78-91 í Laugardalshöll í kvöld...

Ísland stóð í feikisterku liði Serba – 78-91 í Laugardalshöll í kvöld (umfjöllun)

Ísland tapaði með 13 stigum gegn feikisterku liði Serba í Laugardalshöllinni í kvöld.  Íslenska liðið átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik en átti mjög góða kafla í seinni hálfleik og munaði því aðeins 13 stigum á liðunum þegar yfir lauk, 78-91.  Íslenska liðið getur gengið stolt frá velli eftir svona frammistöðu enda gríðarlega sterkt lið sem Ísland mætti í dag.  Besti maður vallarins, Milos Teodosic fór illa með íslensku vörnina á köflum en hann skoraði 14 stig, gaf 4 stoðsendingar og hirti 4 fráköst.  Hjá Íslenska liðinu átti jón Arnór mjög góðan leik með 21 stig og 6 stoðsendingar en næstu menn voru Pavel Ermolinskij með 14 stig, 5 stoðsendingar og 5 fráköst og Hlynur Bæringsson með 13 stig og 8 fráköst.  Finnur Atli Magnússon og Ægir Steinarsson áttu líka virkilega fínan leik og áttu stóran þátt í góðum kafla íslenska liðsins í byrjun seinni hálfleiks.  
Byrjunarliðin voru:

Jón Arnór, Pavel, Logi, Haukur, Hlynur

Dusko Savanovic, Milos Teodosic, Marko Keselj, Vladimir Stimac, Milenko Tepic,

Jón Arnór, helsti varnarmaður íslenska liðsins, var í upphafi leiks settur til höfuðs Milos Teodosic sem spilar með CSKA í Rússlandi en hann er lykilmaður í liði Serba og af mörgum talinn þeirra besti leikmaður.  Serbarnir áttu fyrstu fjögur stig leiksins áður en Hlynur Bæringsson skoraði fyrstu stig íslands, 2-4.  Serbarnir höfðu frumkvæðið þangað til Jón Arnór jafnaði metin í stöðunni 7-7 og Jakob Sigurðarsson kom Íslandi yfir 9-7.  Serbar gengu þá á lagið og Íslenska liðið var fljótlega komið í villuvandræði.  Serbar skoruðu næstu 7 stig og höfðu yfir 9-14 þegar Ísland tók leikhlé. 

Vladimir Stimac reyndist  Serbíu virkilega vel og skoraði 8 af fyrstu 16 stigum Serbanna, öll af krafti undir körfunni.  íslendingarnir voru duglegir að sækja á körfuna og fengu nokkrar góðar körfur og vítaskotið að auki.  Ísland náði þar forskotinu aftur niður í 5 stig, 16-21, áður en Serbar taka leikhlé.  Ísland nýtti það leikhlé vel og minnkaði muninn fljótlega ennþá meira, niður í 2 stig áður en að Milos Teodosic svarar með síðasta skoti leikhlutans, 19-24.  

Serbarnir voru fljótir að refsa strax í upphafi annars leikhluta og þegar tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum höfðu þeir náð forskotinu upp í 7 stig, 20-27.  Íslenska liðið barðist vel og voru á köflum í óheppnir að hlutirnir duttu ekki með þeim.  Ísland tók svo leikhlé þegar þrjár mínútur voru liðnar og staðan var 22-29, en íslenska liðið hafði þá fengið nokkur tækifæri til þess að minnka muninn.  Haukur Helgi fékk sína þriðju villu eftir fjórar mínútur í öðrum leikhluta og var settur á ís, óheppilegt þar sem hann hafði verið að spila vel í vörninni.  Serbarnir gengu á lagið og juku muninn hægt og rólega.  Þegar annar leikhluti var hálfnaður var munurinn kominn upp í 11 stig, 22-33.  Helgi Magnússon setti þá fyrsta þrist Íslenska liðsins eftir 15 mínútur af körfubolta, 25-33.  Íslendingar fengu ítrekuðað opin skot fyrir utan og það gekk lítið að nýta þau, en liðið hafði aðeins nýtt eitt af 7 tilraunum í leiknum.  Serbía hélt áfram að auka forskotið og þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks munaði 15 stigum, 25-40.  Íslenska liðið gerði sig seka um alltof mörg klaufamistök og voru að henda boltanum of oft frá sér.  Það sem vantaði hins vegar aldrei uppá var barátta og sást það á villufjöldanum.  Helgi Már Magnússon fékk sína þriðju villu þegar ein mínúta var eftir af fyrri hálfleik, 29-45.  Nemanja Nedovic kláraði fyrri hálfleik fyrir Serba rétt áður en lokaflautan gall og forskot gestanna því 18 stig í hálfleik, 29-47.  

Íslenska liðið var ekki að hitta vel í fyrri hálfleik og hafði aðeins nýtt eitt af fyrstu 13 þriggja stiga skotum í leiknum.  Serbarnir voru einnig að nýta sér stærðarmuninn vel og höfðu hirt 32 fráköst gegn 15 fráköstum Íslands í fyrri hálfleik.  

Hlynur Bæringsson skoraði fyrstu stig íslands í seinni hálfleik eftir að Savanovic hafði aukið muninn um þrjú stig stuttu áður, 31-50.  Ísland minnkaði muninn aftur örlítið þegar leið á þriðja leikhluta og eftir rúmlega fjórar mínútur tók Serbía leikhlé eftir að Finnur Atli setti niður gott skot af baseline, 37-54.  Þegar þriðji leikhluti var hálfnaður fékk Aleksander Rasic sína þriðju villu en forskot Serbanna stóð þá í 23 stigum, 37-60.  Finnur Atli og Ægir Steinarsson áttu mjög góða innkomu í þriðja leikhluta og Íslenska liðið nýtti sér þann meðbyr, liðið minnkaði muninn niður í 17 stig, 43-60 og  Finnur Atli og Haukur minnkuðu muninn svo niður í 13 stig áður en Serbarnir tóku sitt næsta leikhlé, 47-60.  Stuðningsmenn Íslenska liðsins tóku allhressilega við sér eftir það og kunnu vel að meta.  Finnur Atli náði sér svo í sína fjórðu villu stuttu seinna.  Serbarnir kláruðu þriðja leikhluta á flautukörfu með auðveldu sniðskoti, 49-66.  Virkilega flottur leikhluti hjá Íslenska liðinu sem vinnur hann með 1 stigi, 20-19.  

Íslenska liðið hélt uppteknum hætti í fjórða leikhluta og minnkaði muninn fljótt aftur niður í 13 stig, 55-68.  Liðið lét finna vel fyrir sér í vörninni og var augljóslega farið að fara í taugarnar á gestunum.  Um leið og Milos Teodosic kom aftur inná fyrir Serbanna opnuðu þeir vörn Íslands og settu niður þrist, 55-71 og 7 mínútur eftir.  Ægir Steinarsson fékk þá verðskuldaða hvíld og mikið lófaklapp frá áhorfendum enda búinn að spila stórkostlega.  Jakob Sigurðsson svaraði svo fyrir ísland um mínútu síðar og enn munaði 13 stigum, 58-71.  Hlynur fékk sína fjórðu villu þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum, 58-74.  Serbarnir voru þó ekki á því að leyfa Íslenska liðinu að komast inní leikinn og settu niður stóru skotin.  þegar fjórar og hálf mínúta var eftir munaði 18 stigum á liðunum en þá fékk Milos Teodosic dæmda á sig óíþróttamannslega villu og Haukur minnkaði muninn aftur niður í 17 stig, 63-79.  Hlynur bætti svo við tveimur af vítalínunni og Íslandi fékk því fjögurra stiga sókn, 65-79.  Jón Arnór tók skrefið framhjá sínum manni, í sniðskotið og fékk villuna að auki þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum, 70-81.  Serbarnir áttu næstu 6 stig leiksins og var þar Milos Teodosic lykilmaður í að splundar íslensku vörninni, 71-87.  Íslenska liðið gaf þó hvergi eftir á lokasekúndunum og endaði leikurinn með 13 stiga sigri Serba, 78-91.  

Mynd: [email protected]
Umfjöllun : [email protected] 

Fréttir
- Auglýsing -