Íslenska landsliðið verður í riðli með Finnlandi á Eurobasket 2017. Leikið verður í Helsinki og hefst mótið þann 1. september 2017. Þetta kemur fram á Vísi.is en talið er að FIBA muni senda út formlega tilkynningu síðar í dag.
Samningaviðræður hafa staðið síðustu vikur á milli landanna og hefur þeim nú lokið farsællega. Riðlarnir fjórir verða spilaðir í Finnlandi, Tyrklandi, Rúmeníu og Ísrael. Þjóðirnar fjórar sem hýsa riðlana mega velja sér eina samstarfsþjóð í riðilinn til sín og tekur sú þjóð þátt í skipulagningu og yrði samstarfsaðili heimaþjóðarinnar.
„Hægt er að semja um þessi mál, það sem verið er að gera er að tryggja miðasölu frá amk. einu gestalandi í riðlinum sem fram fer í Finnlandi. Fyrir um það bil tveimur árum var það ákvörðun FIBA Europe að hafa forkeppnina í fjórum löndum og þá gat mótshaldari unnið með einni þjóð að samstarfi innan riðilsins eins og við erum nú að kanna með Finnlandi. Þetta fyrirkomulag sem við kynntumst 2015 hafði góð áhrif,“ sagði Hannes S. Jónsson formaður KKÍ við Karfan.is fyrir nokkrum dögum.
Finnland er sennilegast fýsilegasti kosturinn fyrir Ísland hvað varðar fjarlægð en Rúmenía kom ekki til greina þar sem þeir eru í sama styrkleikaflokki og Ísland.
Ekki skemmir fyrir að 2. september spilar Finnland við Ísland í undankeppni HM 2018 í fótbolta en Eurobasket 2017 hefst 31. ágúst. Miðað við vinsældir knattspyrnuliðsins yrði það fýsilegur kostur fyrir Íslendinga að geta séð bæði körfuknattleikslandsliðið á lokamóti og knattspyrnulandsliðið í undankeppni HM.
Auk þess að leika í Finnlandi tekur íslenska körfuknattleikssambandið þátt í skipulagningu mótsins og verður með-gestgjafi finna á þessu móti. Komið hefur fram að Finnland átti í viðræðum við eina aðra þjóð sem var samkvæmt heimildum Karfan.is Litháen en finnar hafa nú ákveðið að semja við Ísland.