spot_img
HomeFréttirÍsland sannfærandi í sigri gegn Noregi - NM2022

Ísland sannfærandi í sigri gegn Noregi – NM2022

U16 lið stúlkna sigraði Noreg í síðasta leik dagsins, 69-55. Þar með lýkur fyrsta degi á NM2022 með sigri hjá öllum liðunum. Skemmtilegast er þó að í öllum leikjum dagsins lenti íslenska hersingin öll aðeins einu sinni undir, þó aðeins í þrjár mínútur.

Gangur leiks

Fyrsti leikhluti leiksins byrjaði hægt hjá báðum liðum þar sem vörnin tók öll völd og Ísland stal boltanum 7 sinnum. Á tímapunkti virtist sem Noregur ætlaði sér að komast yfir þegar þær náðu stöðunni í 9-8, en Íslensku stelpurnar voru alltaf einu skrefi á undan. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 22-12.

Eitthvað sagði norski þjálfarinn rétt á milli leikhluta þar sem Noregsstúlkur komu sterkar inn og sóttu ítrekað að körfunni. Þar gekk þeim betur en vonað var eftir og náðu þær að minnka muninn í 4 stig þegar 2:30 voru eftir. Íslensku stelpurnar náðu ekki að breikka muninn mikið en þó smá og lokatölur í hálfleik 35-28. (2. leikhluti: 13-16)

Rauði þráðurinn gegnum fyrri hálfleikinn voru villur og vítaskot, en 28 villur voru dæmdar í hálfleiknum (14 á hvort lið) og saman tóku liðin 35 vítaskot. Nýting Íslands frá vítalínunni var þó talsvert betri heldur en Noregs, en þær skoruðu úr 14 af sínum 19 vítaskotum (74% skotnýting) á meðan Noregur hitti úr 3 af 16 (19% skotnýting).

Liðin skiptust á körfum í þriðja leikhluta og töluvert minna var um villur heldur en í fyrri hálfleik, aðeins 8 í heild. Við fimmtu mínútu höfðu Norðmenn minnkað muninn í 6 stig en þá fékk Ísland vind í seglin og skoruðu 11 stig gegn 4. Ísland vann leikhlutann 17-12 og staðan eftir þriðja 52-40.

Fjórði leikhluti virtist halda sömu sniði fyrstu mínúturnar, karfa fyrir körfu, en við miðbik leikhlutans virtist sem Noregur hafði tapað allri orku. Ísland skoraði 4 auðveld sniðskot í röð, þrjú þeirra hraðaupphlaup eftir stolin bolta, og á örstundu varð forskot Íslendinga 17 stig. Þetta forskot breyttist lítið og Ísland vann leikinn 69-55.

Eftir að hafa ekkert leikið í fyrri hálfleik var það staðfest að Heiður Hallgrímsdóttir myndi ekki spila í þessum leik. Samkvæmt sjúkraþjálfara liðsins sneri hún sig á hægri fæti í upphitun fyrir leikinn. Óvíst er hvort hún leiki meira á mótinu.

Atkvæðamestar

Fjóla Gerður Gunnarssdóttir átti flottan leik, reif niður 15 fráköst og varði 3 skot. Einnig spilaði Mathilda Sóldís Hjördísardóttir mjög vel þar sem hún skoraði 16 stig og stal boltanum 7 sinnum.

Hvað er næst?

Liðið leikur gegn Danmörku á morgun kl 12:45 að íslenskum tíma.

Tölfræði leiks

Myndir úr leiknum

Fréttir
- Auglýsing -