14:22
{mosimage}
Kalle Ossiannilsson vinnur hjá norska körfuboltasambandinu og hefur yfirumsjón með landsliðunum. Í grein á basket.no fjallar hann um árangur ungmennalandsliðanna á nýafstöðnu Norðurlandamóti. Hann veltir fyrir sér hvað var gott og hvað mætti bæta.
Norðmenn voru í heildina frekar óánægðir með frammistöðuna og eru greinilega að leita að svörum við því hvers vegna þeir hafa dottið svona aftur úr. Hann tekur fram að það megi ekki alltaf horfa til Svíþjóðar til þess að leita hugmynda um bætt skipulag. Þeir verði að finna eigin svör við því hvernig betri árangur geti náðst. Hins vegar finnst honum að ef Norðmenn ættu að læra af einhverjum öðrum, þá væri það af Íslandi. Sérstaklega hvað varðar hugarfar. Hann segir að Norðmenn þyrftu eins og íslensku liðin að vera þekktir fyrir að spila með hjartanu og neita að gefast upp. Í þessu sambandi segist hann ekki vera hissa á því að 91 landslið Íslands í strákaflokki hafi orðið meistari. Hann kemur svo með dæmi úr leik hjá 89 liði stráka máli sínu til stuðnings. Íslendingar voru 10 stigum undir gegn Finnum þegar um 2 mínútur voru eftir og höfðu misst tvo lykilmenn (Hjört og Þröst) útaf. Þröstur hafði snúið sig en Hjörtur var með 5 villur. Þröstur fer þá aftur í skóna, bítur á jaxlinn og haltrar inná aftur. Setur fljótlega þrist sem snýr leiknum við og eftir það “öskra” Íslendingarnir sig til sigurs.
Ossiannilsson segir að íslensku liðin séu ALLTAF einbeitt og reyni að nota öll atvik leiksins sér í hag. Honum finnst að norskir leikmenn ættu að taka sér svona hugarfar til fyrirmyndar.
Svo er bara að sjá hvort þessar hugmyndir hjá manninum með þetta skemmtilega nafn hafi tilætluð áhrif. Það skildi þó aldrei vera að íslensku liðin mættu “sjálfum sér” þegar þau spila við Noreg á næsta Norðurlandamóti ?
Unnið úr frétt af basket.no