spot_img
HomeFréttirÍsland er ekki einstakt - Opnið á æfingar og keppni

Ísland er ekki einstakt – Opnið á æfingar og keppni

Nú í morgun sáum við þær fregnir að erlendir leikmenn í efstu deild á Íslandi hefðu beðist lausnar undan samningum sínum til þess að geta komist á aðra staði til þess að vinna vinnuna sína. Ástæðan fyrir því er að vinnan sem þeir vinna er og hefur verið ólögleg á Íslandi, einum staða, frá því í byrjun október.

Væru þessir leikmenn einhverstaðar annarstaðar í heiminum gætu þeir mætt í vinnuna, líkt og þeir fjölmörgu íslensku leikmenn sem mæta í vinnuna í öðrum ríkjum en Íslandi. Til þess að nefna nokkra væri hægt að taka til Jón Axel Guðmundsson hjá Fraport Skyliners í Þýskalandi, Söru Rún Hinriksdóttur hjá Leicester Riders í Bretlandi, Elvar Már Friðriksson hjá BC Šiauliai í Litháen, í þremur mismunandi deildum á Spáni þá Hilmar Smára Henningsson, Martin Hermannsson, Hauk Helga Pálsson, Tryggva Snæ Hlinason, Hjálmar Stefánsson og Tómas Þórð Hilmarsson, fyrir utan fjölda leikmanna sem leika í mismunandi deildum bandaríska háskólaboltans.

https://twitter.com/FinnurStef/status/1333022447998820352?s=20

Þjálfarar á Íslandi hafa verið duglegastir að benda á þetta mikla ósamræmi, líkt og sjá má í færslu þjálfara Vals Finns Frey Stefánssonar hér fyrir ofan. Gagnrýnin hefur verið málefnaleg, þar sem oftar en ekki sú staðreynd hefur ómað hæst að Ísland sé eina landið sem ekki leyfi afreksfólki að æfa og keppa. Þá hafa þeir einnig bent á vísindamenn sér til rökstuðnings líkt og þjálfari Stjörnunnar Arnar Guðjónsson gerir hér fyrir neðan.

Eitthvað hefur vantað upp á rök yfirvalda þegar þessum málum er svarað. Enda erfitt að færa rök fyrir því að Ísland sé svo sérstakt hvað varðar hópíþróttir og smit, að hreinlega ekki sé hægt að binda um hnúta sóttvarna með árangursríkum hætti öðruvísi heldur en að banna æfingar og keppni.

Hérna má lesa yfirlýsingu þjálfara frá 16. nóvember

Karfan spyr einfaldlega, hvernig má það vera að Ísland sé eitt ríkja í heiminum sem bannar með lögum æfingar og keppni afreksfólks? Hvernig er hægt að lesa það á annan hátt en að yfirvöld séu vísvitandi að taka stöðu gegn íþróttum í landinu? Það vefst engum að staðan er erfið, en þetta hrópandi ósamræmi getur varla opinberað neitt annað en að hvorki treysti yfirvöld forsvarsmönnum sambanda og liða, sem og sé þarna tekin harðari afstaða gegn íþróttum en nokkurstaðar annarstaðar er gerð í heiminum.

Fréttir
- Auglýsing -