19:48
{mosimage}
(Sigurður Þorvaldsson gerði 9 stig í íslenska liðinu)
Eflaust bjuggust flestir við hörkuleik þegar karlalandslið Íslands mætti Kýpverjum á Smáþjóðaleikunum í dag. Allt fór á versta veg og er þá sama hvert er litið. Íslenska landsliðið var vart skugginn af sjálfu sér og ljóst að strákarnir voru fjarri því klárir í átakaleik og máttu því sætta sig við rassskellingu, 87-54. Margir biðu spenntir við imbakassann því RÚV ætlaði að sýna leikinn í beinni útsendingu en þar bættist grátt ofan á svart.
RÚV kláraði ekki leikinn heldur hætti útsendingu eftir þrjá leikhluta og þá stóðu leikar 65-35 Kýpur í vil. Viðurkennast verður að væntanlega hefur það ekki þótt fýsilegt í Efstaleitinu að seinka sjónvarpsfréttum fyrir rassskellingu Íslands á erlendri grundu en að sýna bara þrjá leikhluta af fjórum vekur upp línu sem Bó Halldórsson lét falla hér um árið: ,,Jú jú, þetta er ágætt, en samt eitthvað svo glatað!“
Ísland bauð upp á svæðisvörn í upphafi leiks en heimamenn í Kýpur áttu ekki í vandræðum með að leysa hana og leiddu 24-19 eftir fyrsta leikhluta. Grindvíkingurinn Þorleifur Ólafsson lokaði fyrsta leikhluta með troðslu og hefði þar vel verið hægt að nota einhverja stemmningu til að keyra íslenska liðið áfram en svo varð ekki. Heimamenn hertu bara róðurinn og leiddu 28-47 í hálfleik.
Íslenska liðið var algerlega á hælunum, bæði var sóknarleikurinn óreiðukenndur og áhugalítill og margir gerðust sekir um hreint viðbjóðslegt sendingaval þar sem Kýpverjar þökkuðu pent fyrir sig og stálu boltanum. Bilið jókst bara í síðari hálfleik og svo fór að Kýpverjar unnu verðskuldaðan stórsigur á hrikalega döprum Íslendingum, 87-54.
Að þessu sinni komu Kýpverjar fram hefndum frá síðustu Smáþjóðaleikum og litu bara ansi vel út á parketinu þökk sé máttlausum Íslendingum. Síðasta viðureign liðanna varð fræg fyrir handalögmál af hálfu Kýpverja þar sem íslenska liðið hafði sigur og tók við Smáþjóðagullinu á nánast afskekktum stað til að afstýra frekari leiðindum. Það var eins og þetta tiltekna atvik væri algerlega þurrkað út úr minni íslenska landsliðsins og viljinn til þess að launa tveggja ára gamla löðrunga með ákefð og baráttu á vellinum, var enginn!
Sigurður Þorvaldsson og Þorleifur Ólafsson voru stigahæstir í íslenska liðinu í dag, báðir með 9 stig. Næstir þeim komu Jóhann Árni Ólafsson og Páll Axel Vilbergsson, báðir með 8 stig. Vasilis Kounnas var stigahæstur Kýpverja með 14 stig.
Næsti leikur karlalandsliðsins er á morgun kl. 15:00 að íslenskum tíma þegar liðið mætir Andorra.