spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaÍR tryggði sér sæti í Subwaydeildinni

ÍR tryggði sér sæti í Subwaydeildinni

Það var allt undir í Kennaraháskólanum í dag er Ármann tók á móti ÍR í hreinum úrslitaleik um sæti í Subway deild kvenna á næsta ári. Þessi tvö lið hafa verið lang bestu liðin í 1. deildinni í vetur og því kom engum á óvart að liðin skyldu mætast í hreinum oddaleik. Ármann varð fyrri áfalli í seinasta leik þegar einn af lykilleikmönnum liðsins, Telma Lind Bjarkadóttir meiddist illa og spilaði hún ekki í dag. Hjá ÍR var Sólrún Sæmundsdóttir enn frá vegna meiðsla.

Leikurinn byrjaði mjög hægt og augljós að leikmenn beggja liða væru stressaðir. Lítið skorað, klikkað á auðveldum sniðskotum og staðan eftir fyrsta leikhluta var 9-8 fyrir Ármann. Í 2. Leikhluta var eins og Ármann hafi hrist af sér stressið á undan ÍR og voru því skrefi á undan allan leikhlutann og var Ármann með 4 stiga forustu í hálfleik 30-26.

Í þriðja var eins og ÍR-liðið hefði fundið sjálfstraustið sitt og farið að herða vörnina. Á sama tíma var Ármanns-liðið farið að þreytast enda að spila á færri mönnum og fóru að taka óskynsamlegri ákvarðanir í sókninni og mikið einstaklingsframtak með minni árangri en í fyrri hálfleik. Á sama tíma fór sóknarleikur ÍR að ganga betur og náðu þær mest 11 stiga forustu sem er það mesta sem hafði sést í leiknum. En með mikilli baráttu hjá Ármann náðu þær að minnka það niður fyrir lokaleikhlutann og munaði aðeins 5 stigum á liðunum 49-44 fyrir ÍR.

Ármannsstelpur voru ekki lengi að snúa þessu við og þegar aðeins 3 mínútur voru liðnar af lokaleikhlutanum var staðan orðin 50-49 fyrir Ármann. ÍR svarar með fjórum stórum þriggja stiga körfum (Edda Karlsdóttir með þrjá þeirra) og staðan orðin 51-61 þegar aðeins 4 mínútur eru eftir af leiknum.  Ármann voru þó ekki tilbúnar að gefast upp og með tveimur góðum þristum minnka þær muninn í 5 stig og rúm 1 ½ mínúta eftir af leiknum. En því miður dugði það ekki til og ÍR hélt út og vann að lokum 7 stiga sigur, 62-69

Munurinn á liðunum í dag var breidd og reynsla. ÍR gat dreift mínútum betur og eru einfaldlega eldri og reyndari. Ármann liðið getur verið stolt af frábæru tímabili en þegar farið er í oddaleik í úrslitaseríu mun það á endanum bitna á gæðum leiksins þegar 3-4 leikmenn liðsins spila um 40 mínútur í leik.

Það var liðsheildin hjá ÍR sem vann þennan leik í dag en leikmenn skiptust á að stíga upp og vörnin var þétt. Gladiana Aidaly Jimenez var þeirra stigahæst með 19 stig og 8 fráköst, Edda Karlsdóttir með 14 stig og Irena Sól Jónsdóttir 13 stig

Hjá Ármann var Schekinah Sandja Bimpa með 28 stig og 13 fráköst, Jónína Þórdís Karlsdóttir með 15 stig og 13 fráköst og Kristín Alda Jörgensdóttir með 10 stig og 7 fráköst

Til hamingju ÍR með sæti í Subwaydeild kvenna

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Bryndís Gunnlaugsdóttir

Viðtöl / Ólafur Þór

Fréttir
- Auglýsing -