spot_img
HomeFréttirÍR sýndi mátt sinn gegn Njarðvík

ÍR sýndi mátt sinn gegn Njarðvík

ÍR fór ansi illa með Njarðvík í Dominos deild karla í kvöld. Fyrir leik munaði einum sigri á liðunum Njarðvík í vil og því svokallaður fjögurra stiga leikur. Skemst er frá því að segja að Njarðvík átti aldrei roð í kraftmikla ÍRinga í kvöld sem unnu 92-73. 

 

Þáttaskil.

 

Nokkuð jafnræði var á liðunum í upphafi en tilfinningin alltaf sú að breiðhyltingar væru tilbúnari að leggja sig fram á báðum endum vallarins. ÍR fór með 13 stiga forystu í hálfleikinn en liðið hefur tapað síðustu leikjum á slakri frammistöðu í seinni hálfleik og leikurinn því allt annað en búinn þá. ÍR mætti þó mun ákveðnari til leiks í þriðja leikhluta, tók góð sóknarfráköst í gríð og erg og gjörsamlega kaffærðu Njarðvíkingum.

 

Njarðvík reyndi nokkrum sinnum að trekkja af stað áhlaup til að búa til leik en þau voru veikburða og ósannfærandi. Njarðvík skorti plan b í sókninni og náðu því að gera vörn ÍR auðvelt fyrir. Gestirnir voru skíthræddir við að keyra á körfuna þar sem Quincy Hankins-Cole stjórnaði hljómsveit og kór.

 

Tölfræðin lýgur ekki.

 

Ef horft er á tölfræði kvöldsins má velta því fyrir sér afhverju munurinn var ekki meiri að leik loknum. ÍR var með yfirburði í frákastabaráttunni með 48 gegn 24 hjá Njarðvík. Þar af átti ÍR 16 sóknarfráköst gegn 5 hjá Njarðvík. Þessi munur er gjörsamlega ófyrirgefanlegur í leik sem þessum og segir mikið um gang leiksins. Einnig hitti ÍR mikið betur fyrir utan þriggja stiga línuna eða 37% gegn 22% en á tímabili í þriðja leikhluta var eins og öll skot rötuðu ofan í hjá heimamönnum.

 

Hetjan.

 

Miðað við fyrstu vikur Quincy Hankins-Cole hjá ÍR lítur allt út fyrir að þeir hafi dottið í lukkupottinn. Cole var algjörlega óstöðvandi í dag undir körfunni, var með 32 stig, 9 fráköst og 3 varnir boltar. Hann lagði mikið á sig varnarlega auk þess sem hann var síbrosandi allan leikinn og hafði hreinilega griðarlega gaman af. Vert er að minnast á hlut Matthíasar Orra í leiknum en hann stjórnaði liði sínu eins og herforingi.

 

Kjarninn.

 

Njarðvík komst ekki einu sinni yfir í leiknum og virtust hreinlega ekki hafa minnsta áhuga á að vinna þennan leik. Allar aðgerðir þeirra virtust vera af skyldurækni frekar en áhuga. ÍR sýndu loksins hvers þeir eru megnugir en liðið ætlaði sér stóra hluti í vetur en eru nú fyrsta að láta verkin tala. ÍR gekk skynsamlega og rösklega til verks í dag. Léku á sínum styrkleikum og létu áhlaup Njarðvíkinga ekki trufla takt sinn. Sigurinn í kvöld var fyllilega verðskuldaður og síst of stór. Sigur þýddi að ÍR skildi Keflavík eftir í fallsæti og er liðið nú komið með 8 stig eins og fimm önnur lið í deildinni.

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

 

Myndir / Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -