spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaÍR-sigur í Hertz-hellinum

ÍR-sigur í Hertz-hellinum

Það var fjörugur og skemmtilegur körfubolti er ÍR og Keflavík b mættust í 1. deild kvenna í Hertz-hellinum. Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en á sjöundu mínútu leiksins settu Keflavíkurstúlkur á stað þriggja stiga sýningu og á 45 sekúndum settu þær niður þrjá þrista og á 150 sekúndum breyttu þær stöðunni úr 9-8 fyrir ÍR í 9-23 fyrir Keflavík. Þetta var magnað áhlaup hjá Keflavík og staðan leit ekki vel út fyrir ÍR í lok 1. leikhluta.

ÍR-ingar mættu þó með mikla hörku inn í 2. leikhluta og fóru hægt og rólega að nýta sér betur yfirburði sína inn í teig. Á sama tíma fór nýting Keflavíkur að dala fyrir utan þriggja stiga línuna og þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum voru ÍR stúlkur búnar að jafna en tveir þristar frá Eydísi Evu Þórisdóttur á lokamínútum leikhlutans sáu til þess að Keflavíkurstúlkur voru tveimur stigum yfir í hálfleik, 34-36.

Seinni hálfleikur var einstaklega skemmtilegur þar sem liðin skiptust á að skora og náði ÍR mest 7 stiga forustu er Keflavíkur stúlkur voru fljótar að minnka og komast yfir og skiptust liðin á forustu. Þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum skoraði Birna Eiríksdóttir 2 stig fyrir ÍR og kom þeim yfir 53-52 og leit allt út fyrir æsispennandi lokamínútur. En á þeim tímapunkti tóku ÍR stúlkur öll völd á vellinum bæði í sókn og vörn og á næstu fimm mínútum skoruðu ÍR-ingar 16 stig gegn 6 hjá Keflavík og unnu því leikinn 69-58.

Hjá ÍR var Birna Eiríksdóttir stigahæst með 22 stig og 8 fráköst, þar af setti hún 12 stig í fjórða leikhluta. Nína Jenný Kristjánsdóttir var með tvöfalda tvennu, 18 stig og 11 fráköst og Aníka Lind Hjálmarsdóttir daðraði við tvennuna einnig með 15 fráköst og 9 stig.

Hjá Keflavík b átti Eydís Eva Þórisdóttir frábæran leik með 18 stig og 11 fráköst og næst henni kom Agnes María Svansdóttir með 16 stig. Þá verður að nefna að Keflavík á mikið hrós skilið fyrir að senda B-lið til keppni í 1. deild kvenna. Keflavík er með öflugt yngri flokka starf og B-lið þeirra á eftir að setja skemmtilegan svip á 1. deild kvenna og gefa leikmönnum liðsins dýrmæta reynslu.

Myndasafn

Tölfræði leiks

Myndir / Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -