spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaÍR lagði Tindastól í Síkinu

ÍR lagði Tindastól í Síkinu

Tindastóll tók á móti ÍR í fyrstu deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld í fyrsta heimaleik tímabilsins hjá stelpunum.


Leikurinn fór fjörlega af stað og gestirnir voru skrefi á undan í byrjun en heimastúlkur komu sér inn í leikinn með 5 stigum í röð frá Ingu Sólveigu og góð karfa frá Maddie kom heimastúlkum yfir 9-7 um miðjan leikhlutann. Þristar frá Ksenju og Önnu Karen komu forystunni í 6 stig en gestirnir sóttu á og þristur frá Kristínu Maríu jafnaði leikinn í 16-16 þegar um mínúta var eftir af leikhlutanum. Þá tók við undarlegur kafli frá dómurum leiksins sem dæmdu tvær afar vafasamar villur á Maddie Sutton í röð og önnur var klár mistök. Þetta hafði mikið að segja um framvinduna þar sem Maddie var þarna komin með 3 villur og þurfti að setjast á bekkinn og það hafði töluverð áhrif á heimastúlkur enda Maddie þeirra sterkasti leikmaður.  ÍR stúlkur gengu á lagið, stóðu vörnina vel og fráköstuðu mjög vel á báðum endum vallarins og leiddu í hálfleik 33-40 eftir að heimastúlkur höfðu krafsað aðeins til baka með síðustu 2 körfum hálfleiksins.


Í þriðja leikhluta voru gestirnir mun sterkari, skoruðu fyrstu tíu stigin og lögðu grunn að sigri í leiknum á þessum kafla, skyndilega komin 17 stiga munur og heimakonur náðu aldrei að brúa þetta bil.  Baráttan og viljinn var áfram til staðar hjá heimastúlkum en þær náðu í raun aldrei að ógna gestunum að ráði eftir þetta og ÍR sigldi heim nokkuð þægilegum sigri í endann 52-75.

Hjá heimastúlkum var Maddie Sutton atkvæðamest með 15 stig og Ksenja Hribljan átti fínan leik með 10 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar og var framlagshæst liðsmanna Tindastóls.  Hjá gestunum átti Danielle frábæran leik með 17 stig og 14 fráköst. Edda Karlsdóttir stjórnaði leik liðsins af öryggi og vert er að minnast á framlag Shanna Dacanay sem kom inn af bekknum og spilaði öfluga vörn og setti öll sín skot niður, 8 stig.  Stólastúlkur töpuðu 21 bolta í leiknum á móti 8 hjá gestunum og það munar miklu auk þess sem skotnýting gestanna var töluvert betri.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Önnur úrslit dagsins

Umfjöllun, myndir og viðtöl / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -