ÍR vann dramatískan sigur á liði Hauka í IE-deildinni í kvöld þar sem að úrslit réðust alveg undir blá lok leiksins. Með sigrinum náðu Breiðhyltingar að halda sér með toppliðunum og fara inn í jólafrí í 5. sæti. Staða Hauka er ekki vænleg en þeir eru með aðeins tvo sigra fyrir jól og sitja í fallsæti með fjögur stig. Það er ljóst að liðið þarf að fara að vinna leiki og má lítið út af bregða ætli það að halda sér á meðal þeirra bestu.
Haukar opnuðu leikinn með körfu frá Chris Smith eftir mikla baráttu undir körfu ÍR-inga. ÍR skoraði næstu sjö stig áður en að Haukar náðu að svara og eftir það varð leikhlutinn jafn og spennandi. Haukar komust yfir 14-13 með flottri þriggja stiga körfu frá Hauki Óskarssyni en þá settu Breiðhyltingar fimm stig í röð. Mikil barátta einkenndi leikhlutann og voru bæði lið að sýna fínan leik á báðum endum vallarins. Leikhlutanum lauk þó með þriggja stiga forystu Hauka eftir að Sævar Ingi Haraldsson setti niður körfu um leið og leikhlutinn kláraðist, 23-20.
Haukar byrjuðu af krafti í öðrum leikhluta, náðu að auka muninn og koma ÍR þægilega frá sér. Hayward Fain átti stóran þátt í því að Haukar komust átta stigum yfir þegar að hann smellti niður tveimur þriggja stiga körfum og setti svo eitt af tveimur vítum í þremur sóknum Hauka í röð á meðan ÍR-ingar náðu ekki að setja körfu. Haukar breyttu stöðunni úr 34-33 í 41-33. Haukar komust mest níu stigum yfir í leikhlutanum en þá tóku gestirnir leikhlé og réðu ráðum sínum. ÍR ingar minnkuðu muninn niður í fjögur stig þegar að Haukar tóku leikhlé og leikhlutanum lauk með fimm stiga forystu Hauka 43-38.
ÍR-ingar voru mun betri aðilinn megnið af þriðja leikhluta. Nemanja Sovic gerði mörg auðveld stig og nýtti sér þann hæðarmun sem var á honum og Helga Birni Einarssyni leikmanni Hauka. ÍR komst yfir þegar að um fjórar mínútur voru eftir af þriðja leikhluta 47-48 en spilamennska þeirra hafði verið glimrandi fín á þessum kafla. Haukar áttu hins vegar endasprett leikhlutans en þeir enduðu leikhlutann með fjögra stiga forskot eftir að Haukur Óskarsson setti niður flotta þriggja stiga körfu rétt undir lok hans. Staðan eftir þriðja hluta var 57-53.
Haukar voru mun betri aðilinn í upphafi fjórða leikhluta og stefndi allt í að rauðir myndu hirða stigin tvö örugglega. Leikur þeirra var flottur, þeir nýttu skotin sín og baráttan var til fyrirmyndar. Snemma voru þeir komnir níu stigum yfir en það tók gestina ekki nema um mínútu að snúa dæminu við. Leikur Hauka hafði ekki breyst fyrir utan að skot þeirra voru ekki að detta og á meðan var Robert Jarvis að framkvæma alls konar skemmtileg tilþrif á hinum enda vallarins fyrir ÍR. Bláir minnkuðu muninn niður í eitt stig þegar leikhlutinn var hálfnaður og var svo komið yfir tveim mínútum seinna.
Lokamínútur leiksins tóku hreint út sagt vel á taugarnar og var nokkuð ljóst að spádómur þularins á Haukar TV um að úrslit myndu ráðast á skoti á loka sekúndu leiksins kæmi fram. Jafnt var á öllum tölum síðustu mínútur leiksins en við grípum niður í leikinn þegar aðeins 22 sekúndur eru eftir og Haukar ný búnir að jafna leikinn. Staðan var jöfn og ÍR með boltann. Robert Jarvis dundaði sér fyrir utan þriggja stiga línuna og eyddi aðeins fleiri sekúndum af tímanum til þess að taka aðeins eitt skot og freista þess að vinna leikinn fyrir bláa. Hann óð af stað þegar um 7 sekúndur lifðu leiks og smellti knettinum ofaní og kom ÍR tveimur stigum yfir. Haukar tóku leikhlé og 4,4 sekúndur voru eftir af leiknum.
Haukar tóku innkastið á sóknarhelmingi og um leið og Davíð Páll Hermannsson gerði sig líklegan til að grípa boltann úr innkastinu var brotið á honum. Haukaliðið var komið með skotrétt og Davíð fór á línuna, setti bæði skotin niður og jafnaði leikinn. Enginn tími hafði farið af klukkunni því að boltinn fór aldrei í leik og ÍR tók leikhlé.
ÍR tók innkast á sínum sóknarhelmingi og aftur var það Jarvis sem að fékk knöttinn í hendurnar. Hann rak boltann í einhverjar ógöngur út í horn og allt stefndi í framlengingu. Það varð honum til happs, þegar að aðeins 0,3 sekúndur lifðu leiks, að Chris Smith braut klaufalega á honum og hann fékk sín tvö skot þar sem að ÍR-ingar voru einnig komnir með skotrétt. Jarvis setti niður bæði skotin sín og þannig varð loka stað leiksins 82-84. Haukar áttu þó loka orðið í leiknum þegar að Hayward Fain fékk boltann úr innkasti og gerði heiðarlega skottilraun að körfu ÍR-inga sem fór í spjaldið og af hringnum. Hefði hann hitt hefðu Haukar líklega unnið leikinn því að dómarar leiksins sýndu engin merki um að leikurinn væri búinn þegar að hann sleppti knettinum.
Það má því segja að þetta hafi verið hádramatískar 22 sekúndur í Schenkerhöllinni í kvöld þar sem að bæði lið sýndu að þau vildu vinna leikinn. Haukar hefðu nauðsynlega á sigrinum að halda og hefðu kannski með smá heppni getað klárað dæmið. Því fór sem fór og Hafnfirðingar enn í næst neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig.
Robert Jarvis var stigahæstur ÍR með 32 stig og 21 stig og 8 fráköst. Það má segja að Sovic hafi verið akkeri ÍR í seinni hálfleik en hann var búinn að hafa sig lítið frami framan af leik.
Hjá Haukum var þeir Hayward Fain og Chris Smith drjúgir en Fain gerði 31 stig , 11 fráköst og 7 stoðsendingar og Smith var með 12 stig og 13 fráköst.