spot_img
HomeFréttirInnlit hjá liðunum í Domino´s deild karla: Fjölnir

Innlit hjá liðunum í Domino´s deild karla: Fjölnir

Hjalti Þór Vilhjálmsson þreytir frumraun sína sem aðalþjálfari í úrvalsdeild karla þennan veturinn en hann tók við Fjölni af Örvari Þór Kristjánssyni að lokinni síðustu leiktíð. Hjalti stendur skil á svörunum í þessu innliti okkar í Dalhúsin í Grafarvogi.
Hvaða breytingar hafa orðið á leikmannahópnum hjá ykkur frá síðustu leiktíð?
Það hafa orðið nokkrar breytingar á hópnum hjá okkur. Trausti ákvað að snúa heim, Daði Berg fór í FSu og ég sjálfur tilti skónum létt á hilluna. Tómas Tómasson er kominn heim, nýjir kanar, Jóel tók fram skóna á ný og rífur vel upp meðalaldurinn og svo munu yngri strákar úr yngriflokkastarfinu koma sterkir inn.
 
Hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið hjá ykkur?
Undirbúningurinn hefur gengið nokkuð vel, smá eymsli hér og þar en ekkert alvarlegt. Við höfum spilað þónokkra leiki sem hafa gengið þokkalega. Ungu strákarnir að koma sterkir inn og hafa verið duglegir í sumar.
 
Hvernig leggst komandi tímabil í þig í Domino´s deildinni?
Tímabilið leggst mjög vel í mig. Það er komin tilhlökkun í mannskapinn og verður gaman fyrir mig sjálfan að takast á við nýtt verkefni sem ég hef mikla trú á. Mér sýnist liðin koma nokkuð vel undan sumri og á ég vona á mjög skemmtilegu tímabili. Ég hef trú á því að deildin verði nokkuð jöfn og spennandi og liðin verða öll að reita stig af hvort öðru.
 
Hvaða lið telur þú að verði sterkust?
Ég hugsa að deildin verði mjög jöfn, mörg lið með flottan leikmannahóp eins og KR, Grindavík, Keflavík, Stjarnan, Snæfell og Þór. En ég tel að það eigi eftir að verða mörg ,,óvænt úrslit” í vetur.
 
Hvaða leikmönnum ert þú spenntur fyrir, hverjar stíga upp?
Ég vona að yngri drengir fái meiri spilatíma og fái stærri hlutverk í sínum liðum í vetur eftir að 3-2 reglan tók gildi. Það eru þónokkrir öflugir strákar sem eru að koma upp og eiga eftir að gera góða hluti í vetur. Martin í KR, Valur í Keflavík, Emil í Þór, Stefán Karel í Snæfell og Dagur í Stjörnunni eru drengir sem verður gaman að fylgjast með. Svo er Njarðvík og við í Fjölni með lið með meðalaldurinn í kringum 20 ár og fullt af efnivið. Tímabilið verður virkilega athygglisvert og þrælskemmtilegt.
 
Keppni í Domino´s deild karla hefst þann 7. október og lýkur fyrstu umferðinni þann 8. október
 
Fyrsta umferðin
 
7. október
Fjölnir-KR
Tindastóll-Stjarnan
KFÍ-Skallagrímur
 
8. október
Keflavík-Grindavík
Snæfell-ÍR
Þór Þorlákshöfn-Njarðvík
  
 
Fréttir
- Auglýsing -