spot_img
HomeFréttirIgor: Vonandi er okkar tími kominn

Igor: Vonandi er okkar tími kominn

17:15
{mosimage}

(Þjálfararnir Yngvi Páll og Igor Beljanski með bikarinn eftirsótta) 

Igor Beljanski hefur átt erfitt með svefn að undanförnu og segir ástæðuna vera spennu fyrir bikarúrslitaleiknum á morgun. Igor er þjálfari Grindavíkurkvenna sem á morgun mæta Haukum í Lýsingarbikarúrslitum kl. 14:00 í Laugardalshöll. Leikurinn verður í beinni útsendingu hjá RÚV. Igor segir að í heimi fullum af meðalmennsku megi þeir sem hafa sett markið hátt ekki láta pressuna ná til sín. Þetta kemur fram hjá Víkurfréttum, www.vf.is  

,,Planið okkar á morgun er að spila af hörku, spila vel og vinna leikinn,” sagði Igor í samtali við Víkurfréttir á sameiginlegum blaðamannafundi KKÍ og Lýsingar sem fram fór á Hilton hótelinu í Reykjavík.

Grindvíkingar hafa leikið lystavel í Röstinni í vetur en þeim hefur ekki gengið eins vel á útivelli. Við inntum Igor að því hvernig á þessu stæði. ,,Ég tel að við séum ávallt að leika fína vörn sama hvar við erum að spila en sóknin okkar hefur átt í nokkrum vandræðum á útivöllum í vetur. Vonandi getum við yfirstigið það í okkar leik á morgun og náð fram sigri,” sagði Igor og varð honum rætt um styrkleika Hauka sem eru nokkuð hávaxnari en Grindvíkingar.  

,,Haukar hafa bæði hæðina og reynsluna fram yfir okkur, þær léku til úrslita í bikar og deild í fyrra en það sem háir þeim er að þær eru almennt yngri en okkar leikmenn. Kiera Hardy og Kristrún eru reynsluboltarnir í liði Hauka og svo kann Unnur Tara nokkuð fyrir sér í körfubolta en ég tel að hvaða lið sem er í deildinni verði alltaf í vandræðum með Tiffany Roberson í okkar liði,” sagði Igor en þess má geta að Roberson gerði 44 stig gegn Keflavík í síðasta deildarleiknum með Grindavík fyrir bikarúrslitaleikinn.

 Á morgun verður þetta í fjórða sinn sem kvennalið Grindavíkur leikur til bikarúrslita en liðinu hefur aldrei tekist að koma fram sigri í bikarkeppninni í Laugardalshöll. Finnur þjálfarinn fyrir pressu þessa dagana? ,,Ég finn ekki fyrir pressu heldur tel ég að okkar tími sé kominn, þetta er fjórða tilraun fyrir Grindavíkurkonur og nú er vonandi komið að því að landa sigri í Höllinni. Þegar þú setur markið hátt þá villt þú finna fyrir pressu og í heimi sem er fullur af meðalmennsku þá máttu ekki láta pressuna ná til þín þegar þú setur markið hátt,” sagði Igor sem sjálfur leikur með Grindavík í Iceland Express deild karla og segist elska bikarleiki. ,,Bikarleikir eru pressa og það eiga allir að vera ánægðir með að fá verðuga andstæðinga,” sagði Igor.  

Igor sem kemur frá Serbíu er breyskur maður eins og við erum flest og hefur sofið lítið að undanförnu sökum spennings en hann segist vera að skemmta sér konunglega þessa dagana og kveðst mjög spenntur fyrir bikarleiknum.  

www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -