spot_img
HomeFréttirIgor Beljanski til Blika

Igor Beljanski til Blika

10:46

{mosimage}

Breiðabliksmenn hafa fundið lausn á brotthvarfi Nemanja Sovic sem er á leið frá félaginu. Einar Árni Jóhannsson þjálfari liðsins leitaði á kunnuglegar slóðir og hefur gengið frá samningi við Igor Beljanski. Þá hittir Igor fyrir þrjá félaga sína úr Njarðvík, þá Rúnar Inga Erlingsson, Kristján Rúnar Sigurðsson og Jónas Ingason.

Karfan.is náði sambandi við Igor þar sem hann var staddur á heimili sínu í Serbíu og spurði hann hvernig væri að vera kominn til Blika.

”Fyrir það fyrsta þá er ég mjög glaður með að vera búinn að semja við Breiðablik, ég held að með alla þessa ungu og efnilegu leikmenn og mig og besta erlenda leikmanninn í deildinni, Darrell Flake, verðum við lið sem verður erfitt að sigra. Ég er viss um að við komumst í úrslitakeppnina og það er mitt markmið á tímabilinu. Við erum með frábæran þjálfara sem hefur nú þegar sannað sig sem einn af bestu þjálfurum landsins. Ég er mjög ánægður með að endurnýja kynnin við hann þar sem ég átti eitt mitt besta tímabil undir hans stjórn, þá verður einnig gaman að hitta fyrir strákana úr Njarðvík. Þetta eru mjög efnilegir drengir og ég mun gera mitt besta til að hjálpa þeim við að festa sig í sessi í efstu deild. Með reynslu okkar gömlu hundanna og hæfileika ungu leikmannanna verðum við erfiðir við að eiga. Ég er ánægður með að fá tækifæri til að sýna þeim sem efuðust um hæfileika mína eftir síðasta tímabil í Grindavík, þar sem ég lék illa, að ég er góður leikmaður.”

Karfan.is heyrði einnig í Einari Árna þjálfara Blika og spurði hann út í nýja liðsmanninn.

’’Við missum góðan leikmann og góðan dreng í Nemanja en þar sem ég þekki Igor vel og hef átt gott samstarf við hann þá lá það beinast við að kanna stöðuna hjá honum.  Igor hefur sýnt það bæði með Snæfell og Njarðvík að hann er öflugur leikmaður og það sem meira er þá er hann sterkur karakter sem gefur mikið af sér.  Við erum með ungt lið og úrvalsdeildarreynslan af mjög skornum skammti svo ég taldi það rökréttast að finna mann sem þekkti deildina og boltann hér heima ef kostur væri.  Igor átti ekki góðan vetur með Grindavík síðasta vetur en ég veit að hann er hungraður í að sína í hvað hann er spunnið og eins og ég sagði áður þá þekki ég hann vel og það að góðu einu.  Ég hlakka bara til að vinna með honum og sé fyrir mér að hann og Flake láti hressilega til sín taka í teignum á komandi vetri.  Vissulega er hann ekki sami skorari og Sovic en ég sé hann bæta þann þátt með öðrum í okkar liði’’.

Igor sem er þrítugur mun því leika sitt fjórða tímabil á Íslandi næsta vetur og með fjórða liðinu, hann kom upphaflega til Snæfells, fór þaðan í Njarðvík og svo Grindavík. Hann hefur leikið 58 leiki og skorað 12,4 stig að meðaltali í leik og tekið 7,6 fráköst.

[email protected]

Mynd: [email protected]

 

Fréttir
- Auglýsing -