spot_img
HomeFréttirIE karla: Þriðja umferð hefst í kvöld

IE karla: Þriðja umferð hefst í kvöld

14:42 

{mosimage}

 

(Kristinn Jónasson þarf að láta vel að sér kveða í kvöld með Haukum) 

 

 

Þriðja umferðin í Iceland Express deild karla hefst í kvöld með fjórum leikjum og er leikur kvöldsins vafalítið viðureign KR og Skallagríms í DHL-Höllinni í Vesturbænum. Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15.

 

KR hafa unnið fyrstu tvo leiki sína í deildinni en Skallagrímsmenn tapað báðum sínum leikjum naumlega gegn Keflavík og Njarðvík. Bæði KR og Skallagrímur tefla fram feiknasterkum liðum í ár og má búast við svakalegum leik milli þessara liða.

 

Nú þegar hefur það sýnt sig að Tyson Patterson, leikstjórnandi KR, hefur góð tök á sínum mönnum og skapar hann mikið fyrir sína liðsfélaga. Haldi hann uppteknum hætti ættu aðrir liðsmenn KR að hafa það gott og ,,græða” vel á framlagi Patterson sem er snöggur og hefur næmt sendingarauga.

 

Skallagrímsmenn eru að stíga út úr tveimur erfiðum leikjum gegn Njarðvík og Keflavík. Fyrst urðu þeir að játa sig sigraða eftir framlenginu í Sláturhúsinu og svo töpuðu þeir naumlega á heimavelli gegn Íslandsmeisturunum. Valur Ingimundarson sættir sig ekki við neitt annað en sigur í kvöld og hreint frábært hvað hann hefur gert Skallagrímsliðið að stóru nafni í íslenskum körfuknattleik því skemmst er þess að minnast þegar Valur var með þá í 1. deild.

 

Að Ásvöllum má einnig búast baráttuleik þegar Snæfellingar mæta Haukum. Bæði lið hafa unnið einn leik og tapað einum. Justin Shouse hefur ekki náð að sýna sitt rétta andlit með Snæfellingum og þarf að stíga vel upp í kvöld ef Snæfellingar ætla að stela sigri að Ásvöllum. Haukar eru annað og breytt lið frá síðustu leiktíð og ljóst að sleggjan Kevin Smith hefur styrkt liðið töluvert og þá eru turnarnir tveir Kristin Jónasson og Morten Szmiedowicz illviðráðanlegir undir körfunni en spurningin er kannski sú hvernig þeim vegni gegn Hlyn ofurmenni Bæringssyni sem sjaldan hefur verið sterkari en nú.

 

Í Njarðvík mætast heimamenn og Hamar/Selfoss og leika Árborgarmenn án Lewis Monroe sem farinn er frá félaginu og mun ekki leika meira með þeim í vetur. Þá hefur Svavar Pálsson verið að stríða við meiðsli og óvíst hvort hann geti tekið þátt í leiknum. Svo gæti farið að þjálfari H/S, Pétur Ingvarsson, reimi á sig skóna og leiki með lærisveinum sínum. Njarðvíkingar hafa unnið báða sína leiki til þessa, gegn Skallagrím og ÍR og teljast líklegir til þess að hafa yfirburðasigur í kvöld. Þriggjastigaskyttan unga Kristján Sigurðsson verður ekki í leikmannahópi Njarðvíkinga í kvöld en í hans stað kemur Elías Kristjánsson, 17 ára leikmaður með mikla reynslu úr yngri landsliðum Íslands.

 

Þór Þorlákshöfn fær topplið Grindavíkur í heimsókn í kvöld en Þórsarar hafa bitið vel frá sér í upphafi leiktíðarinnar. Grindvíkingar eru á góðri siglingu með Pál Axel í broddi fylkingar og virðist fátt geta stöðvað hann um þessar mundir. Vanmat Grindvíkinga á Þór gæti komið þeim í koll í kvöld en Friðrik Ragnarsson heldur þeim örugglega vel jarðföstum. Rob Hodgson og Damon Bailey hafa dregið vagnin hjá Þórsurum og gert það nokkuð vel en þeir þurfa báðir að sýna stórleik í kvöld ef heimamenn eiga að ná sigri. Bailey hefur ærna ástæðu til þess að spila af öllum lífs og sálarkröftum í kvöld en flestir muna hvernig hans vistaskiptum lauk í Grindavík þegar hann var látinn fara nokkuð tilhæfulaust.

 

ALLIR LEIKIR KVÖLDSINS HEFJAST KL. 19:15

NJARÐVÍK – HAMAR/SELFOSS

KR – SKALLAGRÍMUR

HAUKAR – SNÆFELL

ÞÓR ÞORLÁKSHÖFN – GRINDAVÍK

Fréttir
- Auglýsing -