spot_img
HomeFréttirIðandi spenna í Iðu (Umfjöllun)

Iðandi spenna í Iðu (Umfjöllun)

 
Það var alveg rífandi stemmning í Iðu, þegar líða fór verulega á leik FSu og Þórsara frá Akureyri í 1. deild karla í kvöld. Eftir tvær framlengingar höfðu heimamenn sigur, 104-99, og nokkuð víst er að Akureyringar muni naga sig í handarkrikana alla leiðina norður, enda má segja að þeir hafi hent frá sér, að því er virtist lengi vel, auðveldum sigri.
Gestirnir mættu mun grimmari og höfðu tögl og hagldir á öllum sviðum leiksins. Heimastrákarnir sváfu vært, eins og kornabörn eftir brjóstagjöf, nánast allan fyrri hálfleikinn og Þórsarar fengu aragrúa auðveldra skota. Konrad Tota og Ólafur Torfason fóru mikinn og enginn virtist hafa kjark til að reyna afl sitt gegn þeim. Staðan í hálfleik var 40-55, og þurfti undirritaður að líta á töfluna þrim sinnum til að trúa því að munurinn væri ekki meiri. Sóknarleikur FSu var stirður og einkenndist um of af tilviljanakenndu einstaklingsframtaki, lélegum skotum og töpuðum boltum og varnarleikurinn var linkulegur í hæsta máta.
 
Allt annar bragur var á leikmönnum í seinni hálfleik. Gekk þar fram vasklega Borgfirðingurinn Orri Jónsson, beit í skjaldarrendur eins og Egill Skallagrímsson forðum og reif liðið upp. Ekki var að sökum að spyrja að munurinn minnkaði smám saman, en FSu vann þriðja leikhluta 21-18 og þann fjórða 23-11.
 
Fyrir miðjan seinni hálfleik hafði Ólafur Torfason gert okkur Sunnlendingum þann greiða að brjóta klaufalega af sér, að mati dómara á óíþróttamannslegan hátt, og hafði þar með höggvið í sama knérunn í tvígang og var útlægur ger. Nú varð varnarleikurinn auðveldari fyrir heimamenn og Guðmundur Auðunn gat límt sig á Tota og haldið honum að mestu frá boltanum. Aðrir Þórsarar nýttu ekki tækifærið, helst að Baldur Már Stefánsson héldi uppi merki norðanmanna, en svæðisvörn FSu, með Guðmund að mestu límdan á Tota, setti gestina út af laginu og margar sendingar þeirra fóru forgörðum. Sæmundur Valdimarsson, með sína löngu handleggi, truflaði margar sendingar og hirti fráköst.
 
Til að gera langa sögu stutta var staðan jöfn, 93-93, að loknum 40 mínútum og höfðu þá bæði liðin fengið ágæt tækifæri til að gera út um leikinn. Í framlengingu gerði FSu liðið ítrekaðar tilraunir til að kasta leiknum frá sér í hugaræsingi og fljótfærni. Skiljanlegt er þó að þetta unga lið skorti aga við slíkar aðstæður. Field stóð sig þó vel á þessum kafla, var grimmur í fráköstum og nýtti skotfæri sín vel. En þar sem hallaði á þingi, bætti liðið upp í héraði; vörnin var til fyrirmyndar seinni hluta leiksins og hún skilaði þessum sigri fyrst og fremst.
 
Hjá Þór var Tota öflugur sem fyrr, með 31 stig, 14 fráköst og 34 framlagspunkta, Óðinn var góður, með 18 stig og 11 fráköst, sem og Ólafur Torfason, meðan hans naut við, með 17 stig og 6 fráköst. Baldur Már setti 11 stig, öll undir lokin, Wesley Hsu 9, Bjarki Oddsson 6, Benedikt Pálsson 5 og Sigmundur Eiríksson, Sigurðssonar, 2 stig. Þótti manni að sumu leyti þar vera sá gamli ljóslifandi kominn.
 
Richarf Field var öflugastur heimamanna með 43 stig, 16 fráköst og 53 framlagspunkta. Valur Orri setti 26 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar, en nýtingin ekki eins góð og vant er og eitthvað af töpuðum boltum. Orri skorði 15 stig, Guðmundur Auðunn 9, öll á mikilvægum augnablikum í lokin, Sæmundur 6, Arnþór Tryggvason 3 og Svavar Stefánsson 2 stig.
 
Umfjöllun: Gylfi Þorkelsson
 
Ljósmynd/ Úr safni
Fréttir
- Auglýsing -