spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaHvorn hálfleikinn er betra að vinna?

Hvorn hálfleikinn er betra að vinna?

Það ætti öllum að vera ljóst að ef þú vinnur bæði fyrri og seinni hálfleik í körfubolta þá hefurðu unnið leikinn og þá að hið gagnstæða eigi við um lið sem tapa báðum. Skipti lið milli sín hvorum hálfleiknum, hvorn er þá betra að vinna upp á að vinna leikinn?

Ég skoðaði tölfræði úr hverjum einasta leik aftur til 1999 — í bæði deildarkeppni og úrslitakeppni — og kannaði vinningshlutfall liða sem annars vegar vinna fyrri hálfleik og hins vegar seinni hálfleik.

Sé skoðað allt tímabilið frá 1999 til 2021 þá munar sáralitlu á því hvorn hálfleikinn er betra að vinna. Á þessu tímabili voru 1674 leikir þar sem lið var yfir í fyrri hálfleik og lauk 891 þeirra með sigri þess liðs eða 53,2%. Samtals 1697 leikjum lauk þar sem annað liðið hafði betur í seinni hálfeik og lauk 914 þeirra með sigri þess liðs eða 53,9%. Séu hins vegar einstaka tímabil skoðuð þá getur munað töluverðu á fyrri eða seinni. T.d. á nýliðinni leiktíð var vinningshlutfallið 42,9% eftir sigur í fyrri hálfleik en 62,8% ef lið höfðu betur í seinni hálfleik. Þetta gefur neikvæðan mismun upp á -19,9% sem segir okkur að vægi seinni hálfleiks hafi verið meira yfir leiktíðina. Árið 2003 var vinningshlutfallið 59,6% eftir að vinna fyrri hálfleik en aðeins 44,9% ef lið unnu seinni hálfleik sem gefur jákvæðan mismun upp á 14,6% og bendir til þess að vægi fyrri hálfleiks hafi verið meira þá.

Sé þessu er skipt upp milli deildar- og úrslitakeppninnar, kemur önnur mynd í ljós ef kannað er allt 23 ára tímabilið. Þá munar -1,1 prósentustigi á vinningshlutfalli vegna fyrri og seinni hálfleiks — þeim seinni í hag — ef deildarkeppnin er skoðuð. Hins vegar munar sléttum 2 prósentustigum á fyrri og seinni hálfleik — þeim fyrri í hag — ef litið er til úrslitakeppninnar. Af því mætti mögulega draga þá ályktun að það sé betra að vinna seinni hálfleikinn í deildarkeppninni en þann fyrri í úrslitakeppninni.

Þetta er þó mismunandi eftir árum. Ef við skoðum þau ár sem nefnd voru hér að ofan (2021 og 2003) þá var vægi seinni hálfleiksins umtalsvert í deildarkeppninni 2021 (-22,1%) en töluvert minna í úrslitakeppninni (-4,5%), en árið 2003 var það nokkuð jafnt milli deildarkeppninnar (14,7%) og úrslitakeppninnar (14,3%) en í báðum tilfellum fyrri hálfleik í vil. Oftast fylgir þetta sömu línu milli deildar- og úrslitakeppni en stundum snýst þetta algerlega við líkt og árið 2014 þegar vægi fyrri hálfleiks var meira í deild (13,1%) en vægi seinni hálfleiks varð meira í úrslitakeppninni (-12,9%)

Í töflunni hér að neðan er hægt að sjá þróun milli ára. Þar sjást fjöldi þeirra leikja þar sem annað hvort fyrri hálfleikur eða seinni hálfleikur vannst (leikir), fjöldi þeirra leikja sem enduðu með sigri í hvoru tilfelli fyrir sig (sigrar), vinningshlutfall fyrir fyrri hálfleik og seinni hálfleik (%); í deild, úrslitakeppni og báðum. Mismunur þar á milli sýnir hversu miklu munar milli fyrri og seinni hálfleik. Jákvæð gildi sýna mikilvægi fyrri hálfleiks en neikvæð gildi sýna mikilvægi seinni hálfleiks. Á myndinni sem er einnig hér að neðan er hægt að sjá þetta myndrænt. Dýfan í gildum úrslitakeppninnar 2020 er að sjálfsögðu vegna þess að engin úrslitakeppni var leikin á þeirri leiktíð.


Fréttir
- Auglýsing -