Eftir að nýjar reglur um erlenda leikmenn voru samþykktar með naumum meirihluta á síðasta ársþingi KKÍ hafa félög eins og KFÍ þurft að leggja enn harðar að sér á íslenska leikmannamarkaðnum. Ég ásamt fleirum tók að mér að sjá um að skanna markaðinn og hef þess vegna verið í sambandi við fjölmarga leikmenn í sumar. Þessir leikmenn hafa spannað allan skalann allt frá landsliðsmönnum og niður í drengi sem hafa ekki fengið mörg tækifæri í meistaraflokki. Mér telst til að þetta séu á bilinu 25-30 leikmenn.
Eins og mennirnir eru margir hafa viðbrögðin verið af ýmsum toga. Nokkrir hafa verið heiðarlegir í sinni nálgun og kann ég þeim bestu þakkir fyrir. Sumir ákváðu að slá til og verða stórir fiskar í lítilli tjörn. Nokkrir hafa látið ganga á eftir sér í allt sumar, eflaust til að styrkja samningsstöðu sína annarsstaðar. Enn aðrir hafa spilað sig svo stóra að þeir hafa ekki haft fyrir því að svara, jafnvel þó þeir hafi lítið sannað á vellinum hingað til . Ég hef því vellt því fyrir mér hvort það sé svo að leikmenn á Íslandi kunni ekki að vera fagmenn, jafnvel þó þeir fari fram á háar upphæðir ef semja á við lið úti á landi. Enn sem komið er sé ég ekki að þessi nýja reglugerð geri neitt annað en að hækka verðmiðann á íslenskum leikmönnum.
Það virðist vera svo að leikmenn séu séu frekar lítið spenntir fyrir því að leika úti á landi. Þar skiptir litlu hvað er í boði. Allt of margir leikmenn eru í þessu sporti til að sitja á bekknum og/eða spila aukahlutverk á SV-horninu. Nú veit ég vel að fólk getur haft hinar ýmsu ástæður fyrir því að þeir vilja ekki fara útá land. Sumir eru í námi, aðrir vinnu og eiga svo ættingja og vini sem halda þeim á einum stað fram yfir annan. Við eigum jú enga keiluhöll eða Kringlu á Ísafirði ! En svona án gríns þá get ég samt ekki annað en spurt mig að því hvers vegna menn eru að stunda þetta sport ef þeir hafa ekki metnað til að bæta sig.
Vilja menn virkilega æfa 5-10 sinnum í viku 11 mánuði á ári til að spila lítið sem ekkert ? Er metnaður margra almennt ekki meiri í þessu sporti okkar en að vera sáttir við nokkrar ruslmínútur megnið af ferlinum ? Ég hvet þá sem hafa virkilegan metnað til að verða öflugir leikmenn að skoða það að spila fyrir minni lið á landsbyggðinni. Í gegnum árin hafa komið nokkrir leikmenn til okkar sem þorðu að horfa út fyrir rammann. Þeir hafa allir bætt sinn leik, aðallega vegna þess að þeir fengu tækifæri og spilatíma. Ég get nefnt menn eins og Friðrik Stefánsson, Ólaf Ormsson, Hrafn Kristjánsson, Pétur Má Sigurðsson, Svein Blöndal, Ara Gylfason, Almar Guðbrandsson, Kristján Pétur Andrésson, Jón Hrafn Baldvinsson og fl.
Hér er rétt að taka fram að þetta er líka veruleikinn í fótboltanum. Leikmenn eru með óraunhæfar kröfur og vilja svo helst ekki vera úti á landi. En í fótboltanum hefur mönnum borið gæfa til að vera ekki að gera liðum á landsbyggðinni erfitt fyrir með tilviljanakenndum reglugerðum ! Í Pepsi deildinni eru t.d. um 50 erlendir leikmenn.
Á landsbyggðinni hefur víða verið unnið frábært starf við að byggja upp körfuboltafélög og deildir. Það hefur verið gert þrátt fyrir umtalsverðan kostnað við ferðalög og gistingu bara til að geta tekið þátt í mótum eins og hinir. Það er samt nánast allstaðar sama sagan. Erfitt er að ná í leikmenn, og við mætum litlum skilningi. Þess vegna hafa menn samið við erlenda leikmenn sem fara fram á mun minni upphæðir en íslenskir fyrir sitt framlag. Er það virkilega svo að vilji þeirra sem eru í körfuboltafjölskyldunni sé að landsbyggðin fari bara aftur í gömlu héraðsmótin og hætti að vesenast þetta með stóru körlunum?
Er það hugarfarsbreyting sem þarf hjá okkur, eða mun þetta verða svona áfram ?
Með körfuboltakveðjum
Ingólfur Þorleifsson
Stjórnarmaður í Körfuknattleiksfélagi Ísafjarðar