5. sæti
Jason Richardson
Jason er líklega sá leikmaður á þessum lista sem á troðsluhæfileikum sínum hvað mest að þakka frægð sína og frama. Ef ekki væri fyrir troðslumaskínuna sem býr innra með honum hefði hann líklega ekki komist í svoðsljósið jafn mikið og raun ber vitni. Jason vann troðslukeppnina tvö ár í röð, 2002 og 2003 en hann er þar með einn af þremur leikmönnum sögunnar sem hefur afrekað það, ásamt Michael Jordan og Nate Robinson.
4. sæti
Dwight Howard
Dwight elskar athyglina og er nú kominn yfir í Hollywood þar sem hann telur grasið vera grænna. Dwight hefur líkt og aðeins örfáir leikmenn í sögu deildarinnar líkamlega yfirburði sem erfitt er að jafna. Hann er 211 cm og með vænghaf uppá rúmlega 220 cm. Margir spá því að með nýju liði og áhugaverðum liðsfélögum muni enginn leikmaður í deildinni troða jafn oft og Dwight Howard á komandi tímabili.
3. sæti
Lebron James
Lebron þarf varla að kynna fyrir neinum, hann er líklega kraftmesta troðslumaskína sem NBA deildin hefur fengið að kynnast. Hann nýtir hvert tækifæri sem gefst til þess að setja í fimmta gír og troða boltanum eftir hraðaupphlaup. Það er ástæðan fyrir því að við annað hvort elskum hann eða elskum að hata hann. Lebron er einnig eini leikmaðurinn á þessum lista sem aldrei hefur tekið þátt í troðslukeppninni.
2. sæti
Blake Griffin
Það muna allir sem fylgjast með NBA á annað borð eftir því þegar Blake Griffin loksins fékk að spila í NBA deildinni eftir heilt ár á meiðslalista. Blake var ekki lengi að koma sér á lista yfir mest spennandi leikmenn deildarinnar og ástæðan fyrir því var hans ótrúlegi hæfileiki í að troða boltanum. Það jafnast enginn á við Blake Griffin í NBA deildinni í dag.
1. sæti
Það ætti ekki að koma neinum á óvart að mesta troðslumaskínan síðan árið 2000 er Vince Carter. Það hafa fáir afrekað jafn mikið í háloftunum eins og hann. Hver man ekki eftir því þegar Vince ákvað að troða yfir 218 cm leikmann á Ólympíuleikunum árið 2000. Gjörsamlega ómannlegur stökkkraftur og ímyndunarafl í þokkabót gerir hann að einum stórkostlegasta skemmtikraft á sviði íþróttanna síðustu áratugi. Undir eðlilegum kringumstæðum ættu allir körfuboltaáhugamenn að vita hver uppáhalds Carter-troðslan sín er, ef þú ert ekki búinn að velja… hér eru ca. hundrað