spot_img
HomeFréttirHvaða land stendur uppi sem Evrópumeistari?

Hvaða land stendur uppi sem Evrópumeistari?

Undanúrslit á evrópumóti U20 landslið hefjast í dag í Grikklandi. Ísland missti af lestinni í átta liða úrslitum eftir tap gegn gríðarlega sterku liði Ísrael. 

 

Fjögur bestu lið evrópu mætast í undanúrslitum í dag og er spennan gríðarleg. Í fyrri leiknum mætast tvö lið sem við íslendingar þekkjum vel. Það er Frakkland og Ísrael, Frakkland vann Ísland naumlega í fyrsta leik mótsins og hafa vaxið enn meira síðan þá. Liðið mætti sterku liði Serbíu í átta liða úrslitum og Tékkum í 16 liða úrslitum. Ísrael aftur á móti vann Ítalíu í 16 liða úrslitum og vann svo ansi öruggan sigur á Íslandi í 8 liða úrslitum. Leikur Ísrael og Frakklands hefst kl 16:00 að íslenskum tíma og er í beinni á Youtube rás FIBA.

 

Seinni undanúrslitaleikurinn er á milli Grikklands og Spánar. Heimamenn í Grikklandi eru að koma upp úr B-deild og hafa verið ógnarsterkir á mótinu. Liðið vann Litháen í 8 liða úrslitum eftir ótrúlega dramatískan endasprett. Í 16 liða úrslitum mætti liðið Svartfjallalandi og vann ansi örugglega. Spánn vann Þýskaland í átta liða úrslitum eftir jafnan leik en komst auðveldlega uppúr 16 liða úrslitum með 44 stiga sigri á Lettlandi. Bæði lið hafa þótt sigurstrangleg frá upphafi og því ljóst að um gríðarlega áhugaverðan leik er að ræða. Leikur Grikklands og Spánar hefst kl 18:15 að íslenskum tíma og er í beinni á Youtube rás FIBA.

 

 

Einnig keppa fjögur lið um eitt áframhaldandi sæti í A-deild að ári eða sæti 13-16 en þrjú lið falla í B-deild. Lettland og Slóvenía mætast nú kl 11:30 og Ítalía og Tékkland mætast kl 13:45 um seinni leikinn. Liðin sem tapa þessum leikjum eru fallin í B-deild og munu leika um 15 sæti keppninnar á morgun. Liðin sem vinna þurfa svo að leika hreinan úrslitaleik um sæti í A-deild að ári á morgun. 

 

Önnur lið keppninnar leika einnig í dag um sæti 5-12 en Ísland mætir Serbíu í keppninni um 5-8 sæti A-deildar kl 18:15 í kvöld. Nánari dagskrá dagsins má finna hér en mótinu lýkur á morgun sunnudag 23. júlí með úrslitaleikjum. Allir leikir mótsins eru í beinni útsendingu á Youtube-rás FIBA. 

 

Mynd / FIBA

Fréttir
- Auglýsing -