spot_img
HomeFréttirHvað eiga KR, Keflavík og Njarðvík sameiginlegt? Svar: Hamar!

Hvað eiga KR, Keflavík og Njarðvík sameiginlegt? Svar: Hamar!

 
Eitt stykki Reykjanesbær afgreiddur úr höndum Hamars, klappað og klárt. Tveir baráttusigrar komnir í hús á Reykjanesbæjarliðunum og Hamarsmenn hvergi bangnir. Hvergerðingar voru seinir í gang í Ljónagryfjunni í kvöld en slúttuðu með stæl og dúndrandi baráttu. Nautin Svavar Páll og Darri Hilmarsson leiddu ákaft Hamarslið en framlögin frá Dabney, Ellerti og Nerijus Taraskus ásamt öðrum vógu þungt á erfiðum útivellinum. Lokatölur 76-90 Hamri í vil í baráttuleik þar sem eins og oftast, betra liðið vann.
Jóhann Árni Ólafsson var kominn í byrjunarlið Njarðvíkinga á nýjan leik eftir tveggja leikja fjarveru þar sem hann jafnaði sig á meiðslum sem hann hlaut í deildarleik gegn ÍR. Andre Dabney opnaði leikinn með tveimur stigum fyrir gestina en heimamenn komust fljótt í 12-7 með þriggja stiga körfu frá Jóhanni Árna sem átti eftir að setja þær fleiri.
 
Nerijus Taraskus og Snorri Þorvaldsson komu líflegir af bekknum hjá Hamri og með tveimur þristum frá Nerijus og Ellerti komust gestirnir í 16-17. Hjörtur Hrafn Einarsson átti lokaorð leikhlutans með þriggja stiga körfu þegar 20 sekúndur voru eftir en gestirnir leiddu 21-23 eftir upphafsleikhlutann.
 
Hvergerðingar gerðu fimm fyrstu stigin í öðrum leikhluta og leiddu 21-28 áður en Guðmundur Jónsson sökkti þrist fyrir heimamenn. Varnarleikurinn var allsráðandi í upphafi leikhlutans og var nokkuð um stimpingar, óíþróttamannsleg villa og tæknivíti litu dagsins ljós, heimamönnum virtist líka hitinn því þeir tóku að síga fram úr.
 
Kristján Rúnar Sigurðsson kom baráttuglaður inn af Njarðvíkurbekknum og heimamenn skiptu í svæðisvörn sem slökkti algerlega í gestunum á lokapsretti fyrri hálfleiks. Jóhann Árni Ólafsson setti niður þriðja þristinn sinn í jafn mörgum tilraunum og kom grænum í 37-32 og Friðrik Stefánsson var að láta finna fyrir sér í teignum. Hvergerðingar reyndust stigalausir síðustu tvær mínútur fyrri hálfleiks og því leiddu heimamenn 43-32 í hálfleik eftir að hafa unnið annan leiklhuta 22-9. Jóhann Árni Ólafsson var með 9 stig hjá Njarðvík í hálfleik og Friðrik Erlendur Stefánsson var með 7 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar. Hjá Hamri voru Darri Hilmarsson og Nerijus Taraskus báðir með 8 stig.
 
Þriðji leikhluti hófst með látum, Friðrik Stefánsson hrykti í stoðum körfunnar með troðslu og Darri Hilmarsson nelgdi niður þrist á hinum endanum fyrir Hamarsmenn. Gestirnir byrjuðu leikhlutann 4-11 eftir um þriggja mínútna leik og þá var Sigurði Ingimundarsyni nóg boðið og tók leikhlé fyrir Njarðvíkinga.
 
Ellert Arnarson komst betur og betur í takt við leikinn hjá Hamri eftir nokkuð rólegan fyrri hálfleik og það hafði sitt að segja fyrir gestina enda Ellert með næmt auga og skapaði vel fyrir sína menn. Gestirnir hertu svo róðurinn undir lok leikhlutans, léku frábæra vörn og þvinguðu heimamenn út í mistök og unnu leikhlutann 12-29 og snéru því taflinu við í höndum Njarðvíkinga frá öðrum leikhluta. Staðan 55-61 Hamri í vil fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Nerijus Taraskus jók muninn í 10 stig fyrir Hamar þegar hann setti þrist í horninu og fékk villu að auki, 57-67. Njarðvíkingar bitu frá sér og minnkuðu muninn í 5 stig, 62-67 með þrist frá Rúnari Inga Erlingssyni en sprungur voru þegar byrjaðar að myndast í skapi heimamanna og stuttu seinna eftir þetta ágæta áhlaup komu tvær óíþróttamannslegar villur í röð á heimamenn sem vógu þungt.
 
Lokaspretturinn var sem sýndur hægt, lítið skorað og hart barist og nánast í hverri baráttu hafði Hamar betur, áttu svör við öllu, gáfust aldrei upp og unnu að lokum verðskuldaðan 76-90 sigur á Njarðvíkingum með hörkubaráttu að vopni.
 
Svavar Páll og Darri Hilmarsson börðust af krafti fyrir Hamar og þeir Ellert og Dabney voru virkilega ógnandi og Nerijus Taraskus rak svo lestina sem einskonar leynivopn sem skoraði við hvert tækifæri þegar heimamenn virtust gleyma sér í vörninni. Fimm leikmenn Hamars voru með 12 stig eða meira í leiknum og fengu virkilega gott framlag frá öllum sínum mönnum í kvöld. Í Njarðvíkurliðinu var Christopher Smith stigahæstur með 22 stig og Guðmundur Jónsson kom honum næstur með 18 stig.
 
Njarðvík: Christopher Smith 22/8 fráköst, Guðmundur Jónsson 18/5 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 10, Friðrik E. Stefánsson 9/11 fráköst/6 stoðsendingar, Lárus Jónsson 6, Rúnar Ingi Erlingsson 5, Hjörtur Hrafn Einarsson 3, Kristján Rúnar Sigurðsson 3, Hilmar Hafsteinsson 0, Egill Jónasson 0, Páll Kristinsson 0, Ólafur Helgi Jónsson 2 0.
 
Hamar: Nerijus Taraskus 20/8 fráköst, Darri Hilmarsson 19/8 fráköst, Ellert Arnarson 18/8 stoðsendingar, Andre Dabney 17/7 fráköst/5 stoðsendingar, Svavar Páll Pálsson 12/8 fráköst, Ragnar Á. Nathanaelsson 2, Snorri Þorvaldsson 2, Bjarni Rúnar Lárusson 0, Bjartmar Halldórsson 0, Emil F. Þorvaldsson 0, Kjartan Kárason 0, Stefán Halldórsson 0.
 
Dómarar: Jón Bender, Georg Andersen
 
Umfjöllun: Jón Björn Ólafssonnonni@karfan.is  
 
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski Ágúst Björgvinsson stýrði sínum mönnum styrkri hendi í Ljónagryfjunni í kvöld.
Fréttir
- Auglýsing -