Hrunamenn sterkari á lokasprettinum

Í 2. umferð deildarkeppni 1. deildar karla tóku Hrunamenn á móti Ármenningum í fyrsta heimaleik liðsins á leiktíðinni. Hrunamenn höfðu sigur 79-72 í jöfnum leik.

Hrunamenn léku án Bandaríkjamannsins Chance Hunter sem hefur enn ekki fengið leikheimild og Ármenningar léku án svissneska leikmannsins þeirra en hann er meiddur.

Mikið jafnræði var með liðunum í leiknum. Það var jafnt á öllum tölum í 1.- og 3. leikhluta og allt undir lok þess fjórða líka en í 2. fjórðungi leiddi Ármann. Hrunamenn leituðu mikið inn í teig að finnska miðherjanum Aleksi Liukko sem er stór og stæðilegur. Honum gekk prýðilega í 1. fjórðungi að skila boltanum ofan í körfuna eða í hendurnar á hlaupandi samherjum en í 2. fjórðungi náðu Ármenningar að stöðva hann nánast alveg og náðu þannig yfirhöndinni í leiknum.  Í síðustu sókn fyrri hálfleiks skoruðu Hrunamenn svo 7 stig! Þegar aðeins örfáar sekúndur voru eftir að leikhlutanum skoraði Hringur Karlsson þriggja stiga körfu, Ármenningar tóku boltann hratt inn en Eyþór Orri Árnason komst inn í sendinguna og skoraði um leið og brotið var á honum svo hann fékk 2 stig og víti. Vítaskotið skoppaði af körfuhringnum þar sem Aleksi blakaði honum ofan í körfuna sekúndu áður en leiktíminn rann út. Forskot Ármenninga fór þannig úr 13 stigum í 6 stig á 4 sekúndum og e.t.v. varð þessi atvikaröð til þess að Hrunamenn náðu vopnum sínum í síðari hálfleiknum.

Í fyrstu sókn Ármenninga í seinni hálfleik náðu þeir Hrunamönnum steinsofandi í bólinu með sirkusleikkerfi sem margoft hefur sést á fjölunum, leikkerfi sem endaði tilþrifatroðslu DeVaughn Jenkins. Í fyrri hálfleik deildu þjálfarar liðanna leiktímanum nokkuð bróðurlega á milli leikmanna. Menn fengu að koma af bekknum og var treyst fyrir alvöru hlutverki. Í 3. fjórðungi léku Hrunamenn hins vegar á sama mannskapnum lengi og söxuðu niður forskot Ármenninga. Steinar Kaldal þjálfari Ármanns tók leikhlé í stöðunni 55-53 og stöðvaði áhlaupið. Leikurinn var svo jafn fram á síðustu mínútu þegar Hrunamenn sigldu sigrinum í höfn.

Í liði Ármanns var DaVaughn Jengins langatkvæðamestur. Hann skoraði 33 stig, tók 19 fráköst og stal 4 boltum. Austin Bracey byrjaði leikinn vel og var líka sterkur undir lok leiksins en um miðjan leikinn var fátt um fína drætti. Bracey skoraði 11 stig og tók 9 fráköst. Ingimundur Jóhannsson stýrði sóknarleiknum oft á tíðum ágætlega og Egill Jón Agnarsson mætti með gott framlag á völlinn í lokafjórðungnum.  

Í liði heimamanna var Aleksi með 27 stig, 26 fráköst og 7 stoðsendingar, Hringur skoraði 15 stig, Friðrik 14, Óðinn 11 og Eyþór 4 auk þess að senda 8 stoðsendingar og taka 7 fráköst. Friðrik lék sérstaklega vel á síðustu mínútunum, bæði í vörn og sókn.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Birgitte Brugger)

Önnur úrslit kvöldsins