spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaHrunamenn í miklu stuði í Hveragerði

Hrunamenn í miklu stuði í Hveragerði

Hamar tók á móti Hrunamönnum í leik í 1. deild karla. Bæði lið hafa verið í neðri hluta töflunnar. Hlutirnir hafa verið snúast Hrunamönnum í hag eftir meiðsla- og veikindahrinu í leikmannahópnum. Hjá Hamri hefur ýmislegt gengið á. Þeir hafa farið með 6 leikmenn í útileikina austur á land, tapað mörgum leikjum, þeirra albesti Pálmi Geir yfirgaf félagið og skipti yfir í Leikni og þaðan yfir í Val og nýjstu fréttir herma að Arnar Dagur Daðason, ungur og efnilegur Hvergerðingur, hafi hætt í liðinu. Félagið hefur fengið 3 leikmenn að láni frá úrvalsdeildarliði ÍR, þá Alfonso Birgi Söruson Gomez, Daða Berg Grétarsson og Benóný Svan Sigurðsson, allt strákar sem hafa fengið mínútur í úrvalsdeild og ættu að færa reynslu í leikmannahóp Hamars með tíð og tíma og breikka hópinn sem Rui Costa þjálfari hefur úr að moða.

Það var stemmning í mannskapanum í Hveragerði þrátt fyrir áhorfendaleysið. Heilt 12 manna lið og 5 manna starfslið og AC/DC í botni. Hrunamenn byrjuðu leiknn vel. Þeir skoruðu fyrstu 9 stig leiksins. Hamar skipti Daníel Sigmari og Alfonso inn á og innkoma þeirra hleypti lífi í leik Hamars, Simmi skoraði þriggja stiga körfu og Alfonso hitti þremur þriggja stiga skotum á skömmum tíma. Hrunamenn voru miklu betra liðið í framan af fyrri hálfleiknum. Það var rétt í lok 2. leikhluta að einhver neisti kviknaði í Hvergerðingunum og leikur þeirra síðustu mínútur fyrir leikhlé var ljómandi fínn. Kristinn Ólafsson kom inn á fyrir Hamar og tók rosalega fast á Hrunamönnunum og Rui prófaði að setja Hauk Davíðsson til höfuðs Kent Hanson sem hafði verið sjóðheitur. Hauki tókst að leysa það hlutverk ágætlega fyrst um sinn og Hamarsmenn náðu að stöðva nokkrar sóknir Hrunamanna. Stemmningin var öll með Hamri um tíma; bekkurinn var peppaður og leikmennirnir á vellinum frískir. Á þessum kafla voru Hrunamenn í svæðisvörn þar sem þeir lokuðu svæðum í teignum en skildu eftir stór göt í vörninni fyrir skotbakverðina. Björn Ásgeir hitti skoti og skoti og munurinn á liðnum var ekki nema 9 stig í hálfleik.

Hrunamenn yfirspiluðu Hamar í seinni hálfleik. Þeir áttu í vandræðum með skiptingar á hindrunum og litlir og léttir leikmenn fengur stóra og sterka stráka í fangið. Varnarleikur Hamars fór út í hálfgerðan sirkus um tíma. Sem dæmi reyndi Rui að láta Kristin Ólafsson sem er meðalmaður á hæð og kominn af léttasta skeiði, dekka Karlo Lebo! Diddi er sterkur en hann er ekki nema hálfdrættingur á við Karlo og hann réð ekkert við hann. Yfirburðir Hrunamanna í seinni hálfleik voru algjörir og forystan sem liðið hafði náð var aldrei í hættu. Lokatölur voru 80-101.

Lykillinn að sigri Hrunamanna var sjálfsagt hvernig þeir héldu Dareial Franklin frá því að komast í boltann eða að körfunni þegar hann fékk boltann. Hinir liðsmenn Hamars þurftu að taka frumkvæðið í sókninni og á löngum köflum gekk þeim það illa. Dareial var þó stigahæstur Hamarsmanna með 22 stig. Auk þess tók hann 5 fráköst og náði að stela boltanum af Hrunamönnum 4 sinnum. Björn Ásgeir spilaði ágætlega og skoraði 13 stig og Benóný 12 stig. Haukur Davíðs var góður á köflum. Hann kom með flott varnarframlag í fyrri hálfleik og rétt undir lok leiksins var hann áræðinn í sókn með fínum árangri en svo komu líka kaflar í leiknum eins og gengur og gerist hjá ungum leikmönnum þar sem hann lék ekki vel. Alfonso skaut ágætlega í fyrri hálfleik. Hjá Hrunamönnum var Kent Hanson með 31 stig og 7 fráköst, Karlo Lebo með 29 stig og 8 fráköst, Clayton Ladine var með 7 stoðsendingar og 14 stig. Kristófer Tjörvi færði liðinu mikið bæði í byrjun leiks og aftur í 3. leikhluta, Dagur og Eyþór Orri komu fyrstir inn af bekknum og skiluðu báðir stigum og framlagi sem skipti máli. Yngvi Freyr virkaði þreyttur, skoraði lítið og hreyfði sig hægt, en hann lék boltanum vel og hélt ágætlega aftur af Maciek miðherja Hamars. Óðinn Freyr minnti á sig með ágætum mínútum, stoðsendingu og þristi og Hringur tók 4 góð fráköst, átti glæsilega stoðsendingu og skoraði tvær flottar körfur og Páll Magnús skilaði góðri varnarframmistöðu að vanda. 

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Karl Hallgrímsson

Fréttir
- Auglýsing -