spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaHrafn Kristjánsson áfram hjá Álftanesi

Hrafn Kristjánsson áfram hjá Álftanesi

Körfuknattleiksdeild Ungmennafélags Álftaness hefur framlengt samningi sínum við Hrafn Kristjánsson sem þjálfara meistaraflokks karla.

Undir stjórn Hrafns varð liðið bæði Íslands- og deildarmeistari annarrar deildar í vetur og mun því liðið leika í fyrstu deild á næsta tímabili. Lið Álftaness vann 16 af 18 leikjum sínum í deildinni og sigraði úrslitakeppnina örugglega. Hrafn á að baki mikla reynslu í þjálfun en hann hefur þjálfað í meistaraflokki í 16 ár þar á meðal lið karlalið Stjörnunnar, karla- og kvennalið KR sem og karlalið Þórs Akureyri og KFÍ.

Huginn Freyr Þorsteinsson formaður körfuknattleiksdeildar Álftaness: „Árangur Álftaness í vetur var framúrskarandi og reynsla Hrafns á mikinn þátt í þessum árangri. Það var því mikill fengur fyrir okkur að hann haldi áfram og vinni að uppbyggingu körfuboltans á Álftanesi. Fyrsta deildin verður verðug áskorun og við ætlum að mæta sterkir til leiks.“

Hrafn Kristjánsson þjálfari: „Uppbygging körfuboltans á Álftanesi gengur vel og það verður áskorun að spila í fyrstu deild á næsta tímabili. Markmið okkar er að halda áfram að spila skipulagðan og skemmtilegan körfubolta og tefla fram liði sem getur veitt öllum liðum deildarinnar verðuga keppni. Undirbúningur er þegar hafinn og við stefnum að því að styrkja okkur enn frekar fyrir komandi vetur.“

Fréttir
- Auglýsing -