spot_img
HomeFréttirHrafn: Gleðjumst við hvern stórleikinn í DHL-Höllinni

Hrafn: Gleðjumst við hvern stórleikinn í DHL-Höllinni

Ríkjandi bikarmeistarar KR drógust í dag á móti Grindavík í Poweradebikarkeppni karla þegar dregið var í 16 liða úrslit. Um sannkallaðan rislaslag í bikarnum er að ræða og því ekki úr vegi að taka púlsinn á Hrafni Kristjánssyni þjálfara KR en hann var bjartur sem endranær.
,,Þetta er fínt enda ekkert við þessu að gera, við tökumst á við þetta eins og hver önnur verkefni og þessi leikur verður svona ,,wild-card“ leikur því við verðum væntanlega með allt aðra liðsmynd í gangi og mögulega enn að slípa okkur saman og fyrir vikið vita Grindvíkingar kannski þá minna um okkur,“ sagði Hrafn en KR hefur látið þá Edward Lee Horton Jr. og David Tairu fara frá félaginu og vinna nú í því að fá nýja erlenda leikmenn til félagsins.
 
,,Annars erum við bara bjartir og viljum endilega halda stóra viðburði eins og þennan í DHL-Höllinni og þá eins oft og við getum, við og deildin gleðjumst við hvern stórleikinn.“
 
Hrafn býst við því að KR verði komið með nýja erlenda leikmenn fyrir deildarleikinn gegn Haukum þann 5. janúar. ,,Við höfum gefið það út að við viljum stærri leikmann en Tairu og svo leikmann í stöðu leikstjórnanda,“ sagði Hrafn sem mætir þá með alíslenskt lið gegn Val í Reykjavíkurrimmu liðanna næstkomandi sunnudag í Iceland Express deildinni.
 
,,Okkar íslenski hópur hefur bara gott af þessu, þegar liðum almennt gengur eitthvað í mót er kastljósið oftar en ekki á erlendu leikmennina enda auðveldara að skipta þeim út. Strákarnir hafa því gott af því að stíga frammi fyrir skjöldu og spila sjálfir. Það býr miklu meira í íslenska hópnum okkar en hann hefur sýnt hingað til og þeir fá tækifæri til að sýna það í síðustu umferðinni fyrir jól.“
 
 
Fréttir
- Auglýsing -