Allt virðist nú stefna í það sem flestir héldu, að Dwight Howard myndi yfirgefa Orlando Magic og hefja nýtt líf á vesturströndinni nánar tiltekið í Los Angeles hjá liði Lakers. Þetta eru óstaðfestar fréttir en miðlar vestra telja þetta nánast frágengið og verði tilkynnt á morgun formlega. Fjögur lið munu koma að þessum skiptum og það dugar ekkert minna þegar þú sendir svona skrokka á milli landshluta í stóru ameríkunni.
Sem fyrr segir er stóra sagan sú að Howard sem hefur ekki verið sáttur í Orlando fara til Los Angeles Lakers. Andre Iguadala myndi fara frá Philadelphia til Denver Nuggets. Philadelphia fengi þá Andrew Bynum og Jason Richardson. Orlando fá fyrir sinn snúð þá Nikola Vucvic (Philadelphia), Aaron Afflalo (Denver) og Al Harrington (Denver) og háskólavalrétt frá öllum þremur liðunum ásamt einhverju klinki.
Þetta þýðir að á næsta tímabili verður byrjunarlið Lakers nokkuð frýnilegt með þá Kobe, Howard, Gasol, Nash og "Heimsfriðinn"
Það sem virðist koma mest á óvart er að Gasol fær að halda sig um kyrrt í Los Angeles en flestir voru nokkuð vissir að hann yrði partur að dílnum. En Gasol er með risa stóran samning við Lakers næstu tvö ár og það var eitthvað sem fældi önnur lið frá honum.
Fróðlegt verður að fylgjast með þegar deildin hefst í október og sjá þá hver hafði vinninginn úr þessum skiptum. Vissulega sterkt fyrir Lakers að ná í Howard en ekki má gleyma að Philadelphia virðist hafa komið nokkuð vel út úr þessu með því að fá Bynum því sterkir miðherjar vaxa ekki á hverju strái í NBA deildinni.