spot_img
HomeFréttirHöttur á toppinn eftir liðssigur á Fjölni

Höttur á toppinn eftir liðssigur á Fjölni

Höttur kom sér á topp 1. deildar karla með frábærum sigri á Fjölni á Egilsstöðum í dag. Liðin voru jöfn að stigum á toppnum fyrir leikinn og því von á hörkuleik. 

 

Það var engin svikinn því spennan var rosaleg undir lokin og voru það Hattarmenn sem voru með sterkari taugar að lokum og unnu þriggja stiga sigur 87-84 á Fjölni.

 

Að neðan má sjá helstu þætti leiksins:

 

Þáttaskil: 

Liðin skiptust 19 sinnum á því að hafa forystu og var leikurinn 15 sinnum jafn því lítið sem skilur liðin af. Þegar 40 sekúndur voru til leiksloka stal Ragnar Gerald boltanum af Róberti Sigurðssyni rauk upp völlinn setti sniðskot og féll víti að auki. Við þetta snerist stemmningin algjörlega á band Hattar, Fjölnismenn fóru illa með síðustu sóknir sínar og tóku þvinguð skot. Hattarmenn voru skynsamari og yfirvegaðri undir blálokin sem skóp þennan sigur. 

 

Tölfræðin lýgur ekki:

Eins og tölfræðin sýnir spilaði Höttur meiri liðsbolta í dag sem sýnir sig mest á því að liðið er með 30 stoðsendingar gegn 14 hjá Fjölnir. Fjölnismenn tóku meira af þvinguðum skotum en tóku fleiri sóknarfráköst, því liðið er með mun verri skotnýtingu heldur en Höttur. 

 

Hetjan:

Mirko Stefán Virijevic átti gjörsamlega geggjaðan leik fyrir Hött. Var með 34 stig og 16 fráköst, hann réð öllu undir körfunni í þessum leik sem reyndist gríðarlega mikilvægt undir lokinn. Hann og þrennu-Moss ná mjög vel saman en sá síðarnefndi var þrem fráköstum frá enn einni þrennunni. 

 

Kjarninn: 

Fyrsta deildin í ár er stórskemmtileg og þrælspennandi. Síðustu ár hefur eitt lið tekið forystuna snemma á tímabilinu og haldið henni til loka en svo er ekki í ár. Það má segja að það séu 3-4 jafn sterk lið sem munu gera tilkall í að fara í Dominos deildina að ári. Með sigri í dag sýndi Höttur styrk sinn og megn, sigurinn var yfirlýsing um að þeir ætla sér beint upp. Liðið spilaði flottan körfubolta á löngum köflum og er með sterkt lið. 

 

Tölfræði leiksins. 

Mynd / Torfi Magnússon

Fréttir
- Auglýsing -