Lokahóf Keflavíkur fór fram í gær þar sem nokkrir leikmenn meistaraflokka félagsins voru verðlaunaðir. Karlalið þeirra fór út í undanúrslitum eftir einvígi við nýkrýnda Íslandsmeistara KR. Kvennalið þeirra fór hinsvegar alla leið og vann bæði Íslands og bikarmeistaratitil þetta tímabilið. Eftir úrslitaleik gegn Skallagrím í bikarúrslitum og svo unnu þær Snæfell, ríkjandi meistara síðustu þriggja ára, í lokaúrslitum 3-1. Eini titillinn sem að Keflavík missti af í vetur var deildarmeistaratitillinn, en honum töpuðu þær á innbyrðisviðureignum gegn Snæfell (liðin jöfn að stigum) 3-1.

Það var því við hæfi að Keflvík setti byrjunarlið kvennaliðs síns allt í úrvalslið félagsins. Venjan hefur verið sú að velja þá 5 bestu af hvoru kyni í þetta lið, en þetta er í fyrsta skipti sem annað liðið á alla fulltrúa. Þær Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, Emelía Ósk Gunnarsdóttir, Thelma Dís Ágústsdóttir, Ariana Moorer og Erna Hákonardóttir mynda úrvalslið Keflavíkur þetta árið.
Annars voru verðlaun sem hér segir:
Meistaraflokkur kvenna
Besti leikmaður: Emelía Ósk Gunnarsdóttir
Mikilvægasti leikmaður: Thelma Dís Ágústsdóttir
Besti varnarmaður: Salbjörg Ragna Sævarsdóttir
Mestu framfarir: Birna Valgerður Benónýsdóttir
Meistaraflokkur karla
Besti leikmaður: Hörður Axel Vilhjálmsson
Mikilvægasti leikmaður: Guðmundur Jónsson
Besti varnarmaður: Reggie Dupree
Mestu framfarir: Magnús Már Traustason
Unglingaflokkur karla
Besti leikmaður: Magnús Már Traustason
Mestu framfarir: Arnór Ingi Ingvason
Unglingaflokkur kvenna
Þar sem tímabil þeirra stendur enn, er ekki búið að veita verðlaun fyrir þann flokk. Það verður gert eftir að þær ljúka leik.