spot_img
HomeFréttirHörður í atvinnumennskuna

Hörður í atvinnumennskuna

{mosimage}

Fjölnismaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson er á leið í atvinnumennskuna en hann hefur gert eins árs samning við spænska liðið Gran Canaria. Hörður vakti mikla athygli á Norðurlandamótinu í Svíþjóð fyrir skemmstu og var m.a. valinn besti maður mótsins þar sem U 18 ára lið Íslands varð Norðurlandameistari.

Viku eftir að Norðurlandamótinu lauk hélt Hörður til Spánar til þess að skoða aðstæður. „Ég sá æfingar hjá liðinu og öll aðstaðan ytra fær einkunn upp á 10,“ sagði Hörður í samtali við Karfan.is.

Samningur Harðar við Gran Canaria er til eins árs með hugsanlegri framlengingu til þriggja ára en samningurinn verður endurskoðaður að fyrsta árinu liðnu. Hörður mun æfa með aðalliði félagsins en leika með unglingaliðinu.

Hörður er orðinn góður af ökklameiðslunum sem hann varð fyrir á NM þar sem hann tognaði illa og mun nýta sumarið vel til æfinga.

Gran Canaria lauk keppni í 5. sæti deildarkeppninnar á Spáni en var slegið út 3-0 í úrslitakeppninni gegn Joventut sem hafnaði í 4. sæti í deildarkeppninni en Joventut datt út gegn meisturum Unicaja 3-2 í undanúrslitum.

Hörður var einn af burðarásum Fjölnismanna í vetur þrátt fyrir ungan aldur en hann gerði 12,6 stig að meðaltali í leik í deildarkeppninni.

Mynd: www.fjolnirkarfa.is

12:34

Fréttir
- Auglýsing -