Keflavík hefur ráðið Hörð Axel Vilhjálmsson sem þjálfara meistaraflokks kvenna hjá félaginu.
Hörður tekur við starfinu af Sigurði Ingimundarsyni, sem tók við Keflavík á miðju síðasta tímabili.
Um árabil lék Hörður með karlaliði Keflavíkur áður en hann færði sig til Álftaness fyrir tveimur árum. Hann lagði skóna svo á hilluna eftir nýafstaðið tímabil.
Þá var Hörður einnig aðalþjálfari kvennaliðs Keflavíkur tímabilið 2022-23, en þá fór liðið alla leið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn, þar sem liðið laut í lægra haldi gegn Val eftir að hafa unnið deildarmeistaratitilinn í deildarkeppninni.
Tilkynning
Í gær skrifaði Hörður Axel undir tveggja ára samning sem þjálfari kvennaliðsins. Hörð þarf vart að kynna fyrir keflvískum stuðningsmönnum en hann lék lengi vel með okkar liði ásamt því að þjálfa kvennaliðið og því má segja að Hörður sé kominn heim. Fyrir stuttu lék hann sinn síðasta leik sem leikmaður en hann tilkynnti opinberlega eftir að Álftanes féll úr leik eftir æsispennandi einvígi gegn Tindastól að hafi leikið sinn síðasta leik. Það verður því frábært að fá hann inn í þjálfarateymið okkar. Framundan eru spennandi tímar og Hörður er kominn á fullt í það að undirbúa komandi vetur. Við bjóðum hann innilega velkominn aftur til okkar og hlökkum til að vinna með honum á ný. Stefnan er að sjálfsögðu tekin á toppinn.